Viðeigandi 3-0 tap í síðasta heimaleik sumarsins
Aðeins 47 áhorfendur sáu leik Tindastóls og Grindavíkur í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Gestirnir náðu snemma yfirhöndinni og var sigur þeirra í raun aldrei í hættu þó svo að Stólarnir ættu nokkra ágæta spretti í leiknum. Lokatölur urðu 0-3.
Það var snarpur sunnanvindur á Sauðárkróksvelli og Grindvíkingar hafa sennilega haldið að þeir væru á heimavelli. Þeir byrjuðu í það minnsta af mikilli ákefð og Juraj Grizelj kom þeim yfir með ódýru marki strax á 6. mínútu leiksins. Það var ansi dauft yfir Stólunum í fyrri hálfleik og hefði mátt halda að leikmenn hefðu fremur kosið að sitja heima í stofu að horfa Enska boltann. Grindvíkingar fengu slatta af ágætum færum fyrir hlé en það var í raun aðeins einu sinni sem Tindastólsmenn ógnuðu marki gestanna, þá átti Benni ágætt skot rétt fyrir leikhlé en boltinn flaug naumlega yfir.
Það var allt annað uppi á teningnum í síðari hálfleik en gegn vindinum reyndu heimamenn að sækja á fleiri mönnum og áttu þá ágætis spilkafla. Ingvi Hrannar fékk óvænt færi rétt við markteig eftir aukaspyrnu en setti boltann rétt framhjá og Fannar Kolbeins skallaði naumlega framhjá marki Grindvíkinga þegar um klukkutími var liðinn af leiknum. Eftir það náðu gestirnir aftur yfirhöndinni en þeim tókst ekki að skora annað mark sitt í leiknum fyrr en á 89. mínútu en það gerði Alex Freyr Hilmarsson eftir hornspyrnu. Stólarnir þustu í sókn en fengu mark í andlitið mínútu síðar þegar Juraj gerði annað mark sitt í leiknum eftir snarpa skyndisókn.
Sem fyrr segir var leikurinn kaflaskiptur af hálfu Tindastólsmanna. Loftur Páll átti fínan síðari hálfleik í hægri bakvarðarstöðunni og Terrence Dietrich var öflugur í markinu eftir að hafa örugglega verið ósáttur við fyrsta markið sem hann fékk á sig. Þá er yfirleitt gaman að sjá Benna leika kúnstir með boltann, sem hann gerði nokkrum sinnum í dag, en því miður á hann það til að velja erfiðari leiðina frekar en að spila einfalt þannig að uppskeran er oft rýr.
Sem fyrr segir voru áhorfendur aðeins 47 í dag á síðasta heimaleik sumarsins og óhætt að fullyrða að strákunum hefði ekki veitt af meiri stuðningi í sumar. Liðið hefur að megninu til verið skipað heimastrákum sem er jú það sem flestir heimamenn segjast vilja sjá. En það er auðvitað gömul saga að þegar gengið er ekki gott þá minnkar stemningin. Kannski verða fleiri Króksarar á síðasta leik sumarsins í Breiðholtinu um næstu helgi þegar Tindastóll mætir Leikni en voru á heimavellinum í dag? Það kæmi ekki á óvart.
Áfram Tindastóll!