Vilja betri kynningu á fyrirhuguðum vindmyllugarði

Skipulags- og umhverfisráð Húnaþings vestra telur sig ekki hafa forsendur til að afgreiða umsögn um breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar varðandi vindmyllugarð i landi Sólheima í Laxárdal í Dalabyggð. Fjallað var úm málið á fundi skipulags- og umhverfisráðs síðastliðinn fimmtudag en áður var málið til umfjöllunar á fundi þess þann 7. desember eftir að Sveitarfélagið Dalabyggð óskaði eftir umsögn Húnaþings vestra við breytingartillögu á Aðalskipulagi Dalabyggðar.
Í fundargerð segir að ráðið telji sig hafa fengið of stuttan tíma til að kynna sér málið auk þess sem gögn sem óskað var eftir frá Dalabyggð hafi ekki borist en þau séu nauðsynleg til að varpa betra ljósi á fyrirhugaðan vindmyllugarð. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 20. janúar.
„Skipulags- og umhverfisráð óskar eftir að haldinn verði íbúafundur eða kynning þar sem farið verði yfir áform um vindmyllugarð á Laxárdalsheiði, við sveitarfélagamörk Húnaþings vestra og Dalabyggðar, með sérstakri áherslu á áhrif í Húnaþingi vestra, s.s. ásýnd, náttúrufar og framtíðarhagsmuni sveitarfélagsins,“ segir í fundargerð skipulags- og umhverfisráðs.
Tengd frétt:
Fyrirhugað vindorkuver við sveitarfélagamörk Húnaþings vestra og Dalabyggðar