Vilja hefta útbreiðslu skógarkerfils
Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur lagt til að farið verði í það að kortleggja hvar skógarkerfill er að byrja að sá sér í vegköntum í sveitarfélaginu og að unnið verði að því á þess vegum að hefta útbreiðslu hans með slætti að lágmarki þrisvar á sumri hverju.
Í fundargerð Sveitastjórnarinnar frá 8. ágúst sl. kemur fram að skógarkerfill er vágestur sem dreifir sér hratt þar sem hann hefur náð að sá sér. Er það helst á svæðum sem búpeningi er ekki beitt og er því líklegast að hann dreifi sér í vegköntum og skurðum og skurðbökkum sem eru afgirtir. Í Húnavatnshreppi hefur hann verið fram undir þetta á mjög afmörkuðum svæðum eins og til dæmis í kringum og út frá Laxárvatnsvirkjun. Þar sem hann hefur náð að breiða úr sér verður gróðurþekjan mjög einsleit og kaffærir hann annan gróður á þeim svæðum.
Helst er hægt að koma í veg fyrir að hann dreifi sér í miklum mæli ef ráðist er gegn honum sem fyrst þar sem hann hefur stungið sér niður. Árangursríkasta aðferðin virðist vera að slá hann sem fyrst á vorin og sem oftast yfir sumarið þannig að hann nái ekki að fella fræ.