Arnar tryggði sigur á síðustu sekúndu

Tilfinngar í Síkinu. Júlíus Orri og Basile fagna körfu. MYND: DAVÍÐ MÁR
Tilfinngar í Síkinu. Júlíus Orri og Basile fagna körfu. MYND: DAVÍÐ MÁR

Lið Tindastóls og Stjörnunnar mættust í fimmtu umferð Bónus deildarinnar í gærkvöldi og var leikið í Síkinu. Lengi vel leit út fyrir að Stólarnir ætluðu hálfpartinn að niðurlægja Íslandsmeistarana og snemma í síðari hálfleik var munurinn orðinn 27 stig. En þá snérist leikurinn við, Stjörnumenn spyrntu við fótum og höndum og skyndilega komust Stólarnir varla lönd né strönd í sókninni og gestirnir tættu forskotið niður. Þeir komust yfir þegar tvær sekúndur voru eftir og virtust ætla að ræna stigunum. Síðasta orðið átti þó Arnar Björnsson sem gestirnir brutu klaufalega á þegar sekúnda var eftir og vítin setti höfðinginn niður af öryggi. Lokatölur 96-95 og hátíð í bæ.

Stjörnumönnum hafa verið mislagðar hendur í byrjun móts og höfðu aðeins unnið einn af fjórum fyrstu leikjum sínum. Þeir fóru hinsvegar vel af stað í gærkvöldi og leiddu 5-11 eftir þriggja mínútna leik. Þá hrukku Stólarnir í gírinn og leiddu 29-24 að loknum fyrsta leikhluta. Þrír þristar frá Arnari (2) og Taiwo án þess að gestirnir svöruðu urðu til þess að munurinn var orðinn 15 stig eftir þriggja mínútna leik, staðan 43-28, og sjö stig í röð frá Geks rétt fyrir hálfleik kom muninum í 23 stig. Staðan 63-39 í hálfleik.

Svona í flestum tilfellum dugar 24 stiga munur í hálfleik til að stuðningsmenn geti tekið því rólega í síðari hálfleik en sem fyrr segir voru Stjörnumenn ekkert á þeim buxunum að gefa stigin eftir átakalaust. Þeir breyttu varnarleiknum sínum og skyndilega fundu Stólarnir engar leiðir að körfunni og Stjörnumenn hlupu í bakið á heimamönnum og söxuðu forskotið niður. Að loknum þremur leikhlutum var staðan 78-67 og eftir hálfa mínútu í fjórða leikhluta var munurinn kominn niður í fimm stig og leikurinn skyndilega galopinn og spennandi. Stólarnir náðu að halda í horfinu að mestu næstu mínútur en þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 85-82.

Giannis jafnaði metin, 89-89, þegar þrjár mínútur voru eftir, Basile skellti í íleggju en Giannis svaraði að bragði. Stólarnir komust í 94-91 þegar Geks skilaði niður þristi, Ægir Þór minnkaði muninn og í næstu sókn Stólanna geigaði skot frá gikkglöðum Geks. Stjarnan spilað langa lokasókn sem endaði með sniðskoti frá Luka Gasic og gestirnir komnir með forystu þegar tvær sekúndur voru eftir. Stólarnir tóku leikhlé og að því loknu tóku þeir boltann inn á vallarhelmingi Stjörnunnar. Arnar fékk boltann og ætlaði beint í skot en Seth LeDay var makalaus klaufi og braut á Arnari sem fékk tvö vítaskot. Sem hann setti að sjálfsögðu niður við mikinn fögnuð Síkisgesta.

Stigahæstur í liði Tindastóls var Taiwo Badmus með 23 stig, Geks var með 18, Basile 14 og níu stoðsendingar, Ivan 12, Arnar 11, Drungilas 10 og tíu fráköst og Júlíus Orri 8. Pétur hefur mátt þola nokkra gagnrýni að undanförnu en hann hefur spilað færri mínútur en oft áður og varla skotið á körfuna. Hann spilaði átta mínútur í gærkvöldi og skilaði þremur fráköstum og fimm stoðsendingum – ekki slæmt. Stólarnir hittu talsvert betur en gestirnir úr 3ja stiga skotum, bæði lið fengu 24 víti og hittu úr 20 en gestirnir tóku heldur fleiri fráköst og þar á meðal 18 sóknarfráköst á meðan heimamenn tóku sjö! Stólarnir töpuðu síðan 19 boltum en gestirnir átta.

En tvö góð stig til Stólanna og því ber að fagna þó svo að andstæðingunum hafi verið boðið upp í tangó upp á gamla mátann. Það vill loða við Tindastólsliðið að gefa andstæðingum sínum færi á endurkomu þegar kötturinn er að því er virðist kominn lengst út í mýri.

Nú má árshátíð KS koma fyrir mér...

Fleiri fréttir