Dom bætist í hóp Stólastúlkna

Dom skrifar undir samning við lið Tindastóls. MYND AF FACEBOOK
Dom skrifar undir samning við lið Tindastóls. MYND AF FACEBOOK

Knattspyrnudeild Tindastóls hefur samið við Dominique Bond-Flasza, jamaíska landsliðskonu, um að spila með kvennaliði Tindastóls í Pepsi Max-deildinni í sumar. Dom hefur spilað 17 landsleiki fyrir Jamaíka (Jamaica Reggea Girlz) og þá hefur hún spilað í efstu deild í bæði Hollandi og Póllandi. Óskar Smári Haraldsson, annar þjálfara Tindastóls, segir miklar vonir bundnar við Dom. „Hún fékk góð meðmæli fyrrum þjálfara ásamt því að hafa spilað á ferlinum með tveimur landsliðskonum Íslands sem gáfu henni góð orð,“ tjáði Óskar Smári Feyki nú í hádeginu.

Hún er 165 sm á hæð og verður 25 ára gömul á árinu. Hún spilaði í fjögur ár í bandarísku háskóladeildinni með Washington Huskers sem er í Seattle. Að skóla loknum skipti hún í Seattle Sounders þar sem hún var í ár, síðan lék hún tvö tímabil með PSV í Hollandi og í fyrra skipti hún í lið Medyk Konin í Póllandi. Pabbi hennar var pólskur en mamman frá Jamaica en Dom bjó framan af í Kanada og síðar í Kaliforníu.

„Dom, eins og hún er kölluð, er reynslumikil og fjölhæfur leikmaður. Hún er mikill sigurvegari, alveg sama hvort það er í leikjum eða æfingum og er það alltaf mikill kostur. Hún getur spilað nokkrar stöður en við þjalfararnir erum að horfa á hana miðsvæðis vallar. Dom kemur sem EU (evrópskur) leikmaður þar sem hún er með hvorki meira né munna en fjögurvegabréf!“ segir Óskar Smári og bætir við að lokum: „Velkomin í Tindastól Dom!“

Dom er væntanleg á Krókinn helgina eftir páska.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir