Golfnámskeið á Blönduósi um helgina

Golfáhugamenn á Blönduósi og nágrenni, jafnt byrjendur sem lengra komnir, ættu að geta átt skemmtilega helgi í vændum þegar boðið verður upp á mikið úrval námskeiða á golfvellinum í Vatnahverfi. Þórður Rafn Gissurarson, atvinnukylfingur, verður á Blönduósi frá föstudegi til sunnudags og mun hann bjóða upp á fjögur námskeið, byrjendanámskeið, krakkanámskeið, hóp- og einkakennslu og námskeiðið Æfðu eins og atvinnukylfingur.

Þórður er 32 ára að aldri og hefur stundað golf frá því hann var sex ára. Átján ára var hann valinn í aðallandsliðið og var meðlimur þess til 25 ára aldurs þegar hann gerðist atvinnukylfingur. Hefur hann mestmegnis spilað á þýsku Pro Golf Tour atvinnumótaröðinni.

Fjórar tegundir námskeiða eru í boði:

Byrjendanámskeiðið er ætlað þeim sem vilja komast í golfíþróttina eða eru nýbyrjuð að spila golf en hafa ekki lært undirstöðuatriðin og tæknina. Farið verður í alla þætti leiksins, þ.e. sveiflu, pútt, vipp, járnhögg og teighögg. Námskeiðið er alls fjórar klukkustundir. Lágmark þrír og hámark sex í hóp. Þátttakendur þurfa ekki að eiga kylfur.

Krakkanámskeiðið er á léttu nótunum fyrir 6-14 ára krakka sem vilja kynnast golfíþróttinni. Undirstöðuatriðin í sveiflu, púttum og vippum verða kennd (grip, staða, sveifla) auk þess sem farið verður í skemmtilega leiki. Jóhanna Guðrún Jónasdóttir leiðbeinir ásamt Þórði. Námskeiðið er alls fjórar klukkustundir og er hámarksfjöldinn 16 krakkar.

Hópkennslan og einkakennsla er í 55 mínútur fyrir 1-4 manns. Hámarksfjöldi í hópkennslu eru fjórir nemendur. Nemendur þurfa ekki að eiga kylfur.

Æfðu eins og atvinnukylfingur er námskeið fyrir kylfinga sem vilja bæta leik sinn og læra að æfa markvisst. Farið verður í teighögg, járnhögg og stutta spilið. Kylfingar munu læra frammistöðuæfingar sem munu skila sér í betra skori út á golfvelli. Að auki verður farið yfir í leikskipulag, ákvarðanatöku og andlegan þátt leiksins. Námskeiðið er alls fimm klukkustundir og er lágmark þrír en hámark sex manns.

Sjá nánar um skráningu, tímasetningar og verð á Facebooksíðunni Golfklúbburinn Ós á Blönduósi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir