Stólastúlkur halda sigurförinni áfram

Stelpurnar í meistaraflokki Tindastóls í körfuknattleik halda áfram að sýna hvað í þeim býr og sigruðu FSu í Iðu á Selfossi í gær. Voru stelpurnar að spila frábæran körfubolta og var aldrei spurning hvoru megin sigurinn yrði í þessum leik.

Stelpurnar náðu að halda andstæðingum sínum í rétt um 50 stigum með frábærum varnarleik og er varnarleikurinn að verða eitt heitasta vörumerki liðsins. Lokatölur leiksins  voru 50-69.

Mikil spenna er nú hlaupin í 1. Deildina, þar sem fjögur lið eru jöfn á toppnum. Breiðablik og Fjölnir eru búin að leika átta leiki, Tindastóll níu leiki og Stjarnan tíu leiki. Þessi fjögur lið eru öll komin með tólf stig í deildinni og mikil spenna framundan í næstu leikjum.

Í frétt á vefsíðu Tindastóls kemur fram að Bríet átti stórleik og réðu þær sunnlensku ekkert við hana, þegar upp var staðið hafði hún skorað 23 stig og er til alls líkleg í næstu leikjum.

Næsti leikur hjá stelpunum verður leikinn í Varmahlíð þarnæsta laugardag, 8. febrúar, vegna þorrablóts í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Grindavík B koma þá í heimsókn og hefst leikurinn kl 14:00. Á vefsíðu Tindastóls eru Skagfirðingar hvattir til að taka sér ísbíltúr í Varmahlíð og koma á leikinn og hvetja stelpurnar okkar.

Stigaskor leiksins: Bríet-23. Tas-21. þóranna-9. Ísabella-6. Linda-6. Jóna-3.

Fleiri fréttir