Þróttarar Lengjubikarmeistari C riðils

Þróttarar fagna Lengjubikarnum innilega. Mynd: PF.
Þróttarar fagna Lengjubikarnum innilega. Mynd: PF.

Það var hörkuleikur í úrslitum C riðli Lengjubikars kvenna á Sauðárkróksvelli í dag þegar stelpurnar í Tindastól tóku á móti Þrótturum úr Reykjavík. Fjöldi fólks mætti á völlinn enda skartaði Skagafjörður sínu besta veðri. Óhætt má segja að Stólar hafi glutrað niður unnum leik og hafi verið sjálfum sér verstar.

Það virtist sem Þróttarar ætluðu að sýna það í upphafi leiks hvaða liði væri spáð toppsæti í Inkasso-deildinni í sumar en Stólarnir trufluðu þá sýningu allverulega. Þær tóku öll völd á vellinum og skoruðu þrjú falleg mörk áður en dómarinn flautaði til hálfleiks.

Annað var uppi á teningnum í seinni hálfleik þar sem gestirnir mættu mun grimmari til leiks og náðu að jafna leikinn um miðjan seinni hálfleik. Undir lokin bjuggust allir við því að Stólarnir væru að landa sigri þegar dæmt var víti á Þróttara og Murr kom sér fyrir á vítapunktinn en markmaður Þróttar varði, en ólöglega að mati dómara þar sem hún hreyfði sig meira en löglegt er á marklínunni. Því þurfti að framkvæma vítið á ný og þá brást Murr ekki bogalistin og kom Stólum yfir á ný 4-3. Í kjölfarið var þjálfara Þróttar sýnt rauða spjaldið og honum vísað á brott og svo lengra í burtu eftir að hann varð uppvís að því að koma boðum til liðsins þar sem hann stóð álengdar við völlinn.

Örfáar mínútur voru til leiksloka og allt stefndi í heimasigur en lukkudísirnar voru ekki hliðhollar Stólum því rétt í lokin náðu gestirnir að jafna á ný og lokatölur því 4-4.

Farið var strax í vítaspyrnukeppni til að ná fram úrslitum og þar komust Stólar yfir á ný þegar ein gestanna skaut í þverslá. Þá þurftu Stólar að nýta sínar spyrnur en eins og áður var lukkan ekki með þeim því tvær spyrnanna fóru forgörðum og Þróttarar fögnuðu sigri. Grátlegt tap en engu að síður gefur leikurinn góð fyrirheit um gott fótboltatímabil hjá Stólastúlkum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir