Varmahlíðarskóli gerir það enn og aftur gott í Skólahreysti

Lið Varmahlíðarskóla í Skólahreysti 2023 ásamt Línu þjálfara. MYND AF SÍÐU VARMAHLÍÐARSKOLA
Lið Varmahlíðarskóla í Skólahreysti 2023 ásamt Línu þjálfara. MYND AF SÍÐU VARMAHLÍÐARSKOLA

Úrslitin í Skólahreysti fóru fram á laugardaginn en einn skóli af Norðurlandi vestra náði inn í úrslit. Þarna var um að ræða Varmahlíðarskóla í Skagafirði sem hafði áður sigrað annan undanriðilinn sem fór fram á Akureyri í lok apríl. Að sjálfsögðu stóðu hreystimenni skólans sig með mikilli prýði en eftir hörkuskemmtilega og spennandi keppni endaði Varmahlíðarskóli í fimmta sæti en tólf skólar kepptu í úrslitum.

Keppnin var á köflum með ólíkindum jöfn þó reyndar Heiðarskóli í Reykjanesbæ hafi unnið keppnina af miklu öryggi en skólinn hlaut 67 stig. Í öðru sæti varð Holtaskóli, sem sömuleiðis er frá Reykjanesbæ, með 50,5 stig og Garðaskóli úr Garðabæ endaði í þriðja sæti með 42 stig. Aðeins munaði fimm stigum á skólanum sem hafnaði í þriðja sæti og skólanum sem varð í ellefts sæti. Hraðaþrautin í lokin var gríðarlega jöfn en hátt í helmingur skólanna lauk þeirri þraut á sama tíma, tveimur mínútum og sextán sekúndum og var Varmahlíðarskóli þar á meðal.

Varmahlíðarskóli hlaut 41 stig eða aðeins einu stigi minna en skólinn í þriðja sæti. Á Facebook-síðu skólans segir: „Þetta er í 10. sinn sem skólinn kemst í úrslit og sjöunda árið í röð. Til hamingju Lína og Skólahreystilið Varmahlíðarskóla.“ Sem er auðvitað alveg magnaður árangur hjá ekki fjölmennari skóla!

Frétt um undanúrslitin >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir