100 nemendur brautskráðust frá FNV í dag

Hér má sjá þá brautskráningarnemendur sem sáu sér fært að mæta til leiks í dag ásamt stjórnendum FNV. MYNDIR: HINIR SÖMU
Hér má sjá þá brautskráningarnemendur sem sáu sér fært að mæta til leiks í dag ásamt stjórnendum FNV. MYNDIR: HINIR SÖMU

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið í 42. sinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í dag. Enn litar Covid-faraldurinn líf okkar en vegna sóttvarnareglna voru einungis nemendur og nokkrir starfsmenn skólans viðstaddir en athöfninni var streymt á netinu. Alls brautskráðust 100 nemendur frá skólanum.

Í frétt á vef FNV segir: „Í máli skólameistara, Ingileifar Oddsdóttur, kom m.a. fram að 2844 nemendur hafa brautskráðst frá skólanum frá upphafi skólahalds haustið 1979. Skólameistari fjallaði m.a. um áhrif COVID-19 á skólastarfið og þakkaði nemendum fyrir þrautseigjuna við þær aðstæður. Þá þakkaði hún fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum fyrir afar ánægjulegt samstarf. Loks greindi frá nýrri reglugerð um vinnustaðanám og þörf fyrir stækkun verknámshúss skólans í ljósi mikillar aðsóknar í verknámsdeildir skólans. Að lokum kvaddi hún starfsmenn sem láta af störfum og þakkaði þeim vel unnin störf, en þeir eru Árni Stefánsson íþóttakennari, Björn Björnsson tréiðnakennari, Gróa Guðmunda Haraldsdóttir heimavistarstjóri, Gísli Árnason rafiðnakennari og Adolf Berndsen skólanefndarmaður.

Kristján Bjarni Halldórsson flutti vetrarannál skólans þar sem stiklað var á stóru í starfsemi hans. Þar kom m.a. fram að á haustönn voru 559 nemendur við skólann. Á stúdentsbrautum voru 125 nemendur, í iðnnámi 148 nemendur, í sjúkraliðanámi 121 nemandi, og í hreinu fjarnámi 149 nemendur. Í kvikmynda- og nýsköpunarnámi voru 8 nemendur, á starfsbraut 13 nemendurog nemendur í almennu námi voru 6 talsins. Grunnskólanemendur sem stunduðu nám við skólann á haustönn voru 29 talsins. Nemendur í námsverum á Blönduósi, Hvammstanga og Hólmavík veru meðtaldir í þessum tölum. Á vorönn 2021 stunduðu 576 nemendur nám við skólann.
Við skólann störfuðu 65 starfsmenn í 53 stöðugildum á haustönn og 54 stöðugildun á vorönn.

Að loknum vetrarannál fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga, sem var í höndum skólameistara. Alls brautskráðust 100 nemendur af eftirtöldum námsbrautum sem hér segir, en alls voru gefin út 109 prófskírteini:

Stúdentsprófsbrautir: 45
Húsasmíði: 28
Húsgagnasmíði: 1
Kvikmyndabraut: 3
Nýsköpunarbraut: 1
Rafvirkjun: 6
Sjúkraliðabraut: 16
Starfsbraut: 1
Vélvirkjun og vélstjórn: 8

Freydís Þóra Bergsdóttir og Arnar Freyr Guðmundsson fluttu ávarp fyrir hönd brautskráðra nemenda. Að lokum flutti skólameistari brautskráðum nemendum heilræði fyrir lífið, óskaði þeim velfarnaðar og sagði skólanum slitið.“

Það er að sjálfsögðu engin brautskráning án tónlistaratriða en að þessu sinni voru það Rannveig Sigrún Stefánsdóttir og Arnar Freyr Guðmundsson sem sáu um þá hlið mála, Rannveig söng og Arnar spilaði undir á hljómborð. Fyrst tóku þau lag eftir fyrrum nemenda skólans, Sigvalda Gunnarsson, og síðan tóku þau nýja útgáfu af Góða ferð og ekki ólíklegt að einhverjir hafi tárast á meðan á þeim flutningi stóð.

Yfirlit yfir þá nemendur sem hluta viðurkenningar má sjá á vef FNV >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir