17. júní í sameinaðri Húnabyggð

Frá skrúðgöngu í tilefni 17. júní á Blönduósi. MYNDIR: RÓBERT DANÍEL
Frá skrúðgöngu í tilefni 17. júní á Blönduósi. MYNDIR: RÓBERT DANÍEL

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní var í gær og að sjálfsögðu var haldið upp á þann mæta dag um allt land og þótt víðar væri leitið. Í nýja sveitarfélaginu Húnabyggð var eðlilega haldið upp á daginn í fyrsta sinn. Bæði Húnvetningar og Skagfirðingar fengu raunar pínu löðrung frá veðurguðunum sem skelltu í rigningu og rok í tilefni dagsins.

Það var því víða farið með hátíðarhöldin inn í hús þar sem því varð við komið og þannig fór á Blönduósi. Þar hófst dagskrá á því að íslenski fáninn var dreginn að húni kl. 8 en í hádeginu var sala á ýmsum varningi tengdum deginum og andlitsmálningu. Skrúðgangan hélt af stað kl. 13:30 og hátíðardagskrá, sem vera átti á skólalóð Blönduskóla, var færð inn í íþróttahúsið og þar var blásinn upp hoppukastali og boðið upp á fjölbreytta dagskrá í tali og tónum. Sr. Edda Hlíf flutti ávarp og fjallkonan, Blönduósingurinn Hjördís Þórarinsdóttir, flutti ljóð svo eitthvað sé nefnt.

Boðið var upp á vöfflur og kaffi að dagskrá lokinni og gestir skemmtu sér fram á kvöld. Róbert Daníel Jónsson, ljósmyndari, var að sjálfsögðu á staðnum og gaf Feyki góðfúslegt leyfi til að birta nokkrar myndir frá deginum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir