Bjarni Jónsson heimsótti stríðshrjáða Úkraínu :: „Við viljum ekki tapa landinu okkar eða fullveldinu,“ sagði Zelensky forseti Úkraínu

Frá fundi formanna utanríkismálanefnda Evrópuríkja með Zelensky Úkraínuforseta og forystu þingsins í sprengjuheldu fundarherbergi undir þinghúsinu. Aðsendar myndir.
Frá fundi formanna utanríkismálanefnda Evrópuríkja með Zelensky Úkraínuforseta og forystu þingsins í sprengjuheldu fundarherbergi undir þinghúsinu. Aðsendar myndir.

Bjarni Jónsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis og formaður utanríkismálanefndar, heimsótti hið stríðsþjáða land Úkraínu á dögunum, réttu ári eftir innrás Rússa í landið. Mikil leynd ríkti yfir ferðum Bjarna og annarra gesta í sömu ferð og segir Bjarni m.a. að hann hafi ferðast með myrkvaðri lest yfir nótt til Kiev í Úkraínu frá Póllandi þann 22. febrúar. Til baka kom hann svo 25. sama mánaðar og tók það ferðalag um tólf klukkustundir.

„Við höfðum aðsetur á hóteli við þinghúsið, en þar var mikill öryggisviðbúnaður og vegatálmar. Vopnaðir verðir við herbergisdyr allan sólarhringinn, auk þess að sérstök sveit var á staðnum með búnað til að nema ferðir eldflauga og vopnaðra dróna,“ segir Bjarni um ferðina og bendir á að fátítt sé að fulltrúar erlendra ríkja séu í Kiev yfir nótt nú um mundir vegna hættu á árásum. Hann segir Zelenski forseta hafa vikið sérstaklega að því og sagt með brosi að þar færi hugrakkt fólk, ekki síst á þessum tímamótum.

Bjarni segir að honum hafi verið boðið sérstaklega til Kiev af forseta þingsins, ásamt þrettán öðrum formönnum utanríkismálanefnda Evrópuríkja, sem hann ferðaðist með frá Póllandi. Ekki voru fleiri frá Íslandi með í för að sögn Bjarna.

„Tilefni ferðarinnar var að sýna Úkraínumönnum samstöðu og stuðning ári eftir innrás Rússa í landið. Einnig að geta átt beinar samræður við þau um stöðuna, framtíðarsýn og með hvaða hætti við gætum haldið áfram að sýna stuðning í verki. Við tókum þátt í athöfn í þingsal við upphaf þingfundar, funduðum með forseta þingsins, forystu þess og formönnum þingnefnda, en einnig með varaforsætisráðherra, utanríkisráðherra, varnarmálaráðherra, orkumálaráðherra og Zelensky forseta. Mér var einnig boðið af landsdeild úkraínska þingsins í Evrópuráðsþinginu, sem formanni Íslandsdeildar að taka þátt í dagskrá á þeirra vegum í þinginu sjálfu og svo viðburðum eins og opnum pallborðsumræðum og hringborðsumræðum með úkraínskum þingmönnum. Þá lagði ég kerti að minningarvegg um þau sem látist hafa vegna stríðsins, með forseta þingsins, Ruslan Stefanchuk, 24. febrúar, ári eftir innrásina. Það var tilfinningaþrungin stund,“ segir Bjarni aðspurður um tilefni heimsóknarinnar.

Góðar kveðjur frá Íslandi

„Á meðan þið eruð hjá okkur þagna loftvarnarflauturnar, árásir á Kiev byrja aftur leið og þið farið,“ sagði úkraínska þingkonan Lesia Vasylenko við Bjarna og það voru orð að sönnu því loftvarnasírenur voru þeyttar fjórum stundum eftir að hópurinn yfirgaf borgina.

„Það var mikilvægt að geta sýnt úkraínsku þjóðinni þann samhug að vera með þeim fyrir hönd Íslands ári eftir að innrás Rússa hófst. Marga vini hef ég eignast í hópi úkraínskra þingmanna undanfarna mánuði og fleiri bættust við í þessari ferð og böndin treyst til framtíðar.“

Bjarni segir margt standa upp úr í ferðarlok og nefnir fyrst fundinn með Zelensky forseta, forustu þingsins, aðstoðarforsætisráðherra og pallborðsumræður með þingmönnum Evrópuráðsþingsins. „Og þá er enn margt ótalið, en það sem snerti mest var að vera viðstaddur upphaf þingfundar 24. febrúar og minnast látinna við veggi klausturs heilags Michaels með forseta þingsins. Það var tilfinningaþrungin stund þegar þingmenn á úkraínska þinginu sungu þjóðsönginn ári eftir innrás Rússa í landið.“

Bjarni segir að fyrir hann og hina þingmenn Evrópuráðsþingsins sem staddir voru í þinginu, snerti það einnig að þingheimur klappaði fyrir þeim í þakkarskyni fyrir samstöðuna að vera með þeim á þessum sögulega hræðilega degi.

„Við viljum ekki tapa landinu okkar eða fullveldinu,“ sagði Zelensky forseti Úkraínu á fundi þeirra en Bjarni flutti góðar kveðjur frá Íslandi til þings og ráðamanna og lýsti m.a djúpri samkennd og virðingu fyrir úkraínsku þjóðinni og því hugrekki og samstöðu sem hún sýni.

„Að Ísland stæði þétt að baki þeim og rétti til fullveldis, yfirráða yfir eigin landi og möguleikum til að móta og ráða eigin framtíð í lýðræðissamfélagi. Ég fór yfir þann stuðning sem Ísland hefur veitt og ræddi leiðtogafund Evrópuráðsins á Íslandi í maí, þar sem mikilvægt er að teknar verði ákvarðanir til stuðnings Úkraínu og leiðir til að draga til ábyrgðar þá sem staðið hafa fyrir stríðsglæpum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Þétt, sterkt handartak, beinskeyttur leiðtogi, Zelensky leiftraði af þeim krafti sem við höfum upplifað undanfarið ár og sameinað hefur úkraínsku þjóðina gegn ógn og hörmungum sem að þeim hefur verið beint. Á meðal þess sem hann beindi til okkar var að það snérist ekki allt um hernaðarstuðning, heldur líka á fleiri sviðum og ekki síst pólitíska samstöðu evrópskra þjóðþinga. Efnahagsþvinganir gegn innrásarþjóð, sameiginlega framtíðarsýn. Það styrkti úkraínsku þjóðina að finna fyrir þeirri samstöðu og yki henni baráttuþrek.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir