Bókakonfekt í Safnahúsinu - Svar Soffíu

Á morgun, fimmtudaginn 14. desember kl. 17.00, kynnir Benedikt Lafleur glænýjan bókmenntaviðburð og áritar þýðingu sína Svar Soffíu í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Benedikt segir að um bókmenntaviðburð sé að ræða og jafnvel að kynjaskandal aldarinnar sé að finna í bókinni og þarft innlegg í í #Metoo umræðuna.

Bókin inniheldur tvær sögur eftir Soffíu Tolstoy, eiginkonu Leo Tolstoy, sem lágu í þagnargildi í 100 ár. „Ekki var ætlast mikið til þess að konur skrifuðu mikið á þessum tíma og ekki mátti skyggja á Leo Tolstoy, sem er einn mesti  skáldajöfur allra tíma,“ sagði Benedikt um bókina í Jólablaði Feykis.  „Mér finnst þessar sögur Soffíu alveg vera í sama klassa og hjá eiginmanninum, og jafnvel betri. Það eru þvílík gæði á þessum sögum.

Tildrög þessara sagna er Kreutzer Sónatan Leos Tolstoy. Hún var mjög umdeild og bönnuð í Rússlandi í upphafi en konan hans, Soffía, fór á fund ráðamanna til að freista þess að fá banninu aflétt,“ segir Benedikt. Það tókst og banninu var svo aflétt með þeim skilmálum að hún yrði gefin út í stórri heildarútgáfu sem enginn hefði efni á að kaupa. „Þeim skjátlaðist hrapalega því bókin seldist vel og varð vinsæl en um leið umdeild,“ segir Benedikt.

„Ég vil endilega reyna að vekja athygli á þessu með tilliti til allra þeirra mála sem eru að koma upp núna, kynferðislega áreitni. Þetta er akkúrat það sem Leó tekur á í bók sinni og svo Soffía sem skrifar sögur sem svar við Kreutzer sónötu eiginmannsins. Þess vegna heitir bókin Svar Soffíu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir