Heimir með Áramótagleði í kvöld

Heimismenn ætla að halda uppi góðri stemningu í kvöld í Miðgarði.
Heimismenn ætla að halda uppi góðri stemningu í kvöld í Miðgarði.

Karlakórinn Heimir heldur áramótatónleika í Menningarhúsinu Miðgarði í kvöld, 29. desember, og hefjast þeir klukkan 20:30. Æringjarnir Óskar Pétursson, Birgir Björnsson og Valmar Väljaots koma fram með kórnum en stjórnandi er sem fyrr Stefán R. Gíslason og undirleikari Thomas Higgerson. Stór tímamót eru nú hjá kórnum þar sem í gær voru liðin 90 frá því hann var stofnaður. Gísli Árnason, formaður kórsins, segir að formleg afmælisdagskrá verði haldin næsta vor.

Eitthvað hefur dagsetning stofndags kórsins verið á reiki þar sem hægt er að finna í gömlum greinum tvær dagsetningar, 27. desember annars vegar og 28. desember hinsvegar og er því oft talað um að hann hafi verið stofnaður í lok desember 1927. Í grein í Morgunblaðinu frá 23. apríl 1958 er sagt að stofndagurinn hefði verið 2. desember eins og sjá má hér að neðan.

Fréttabréf úr Skagafirði:
Karlakórinn Heimir 30 ára

Þann 28. marz s.l. minntist Karlakórinn Heimir í Skagafirði 30 ára afmælis síns með hófi í samkomuhúsinu Bifröst á Sauðárkróki. Var þar margt manna saman komið. Jón Björnsson bóndi og söngstjóri á Hafsteinsstöðum flutti aðalræðuna og rakti sögu félagsins. Fleiri ræður voru fluttar þar á meðal flutti Sigurður Sigurðsson sýslumaður kórnum þakkir frá sýslubúum fyrir störf hans. Þá var sýnd kvikmynd. Á milli sungu einsöng Steinbjörn Jónsson Hafsteinsstöðum og Árni Kristjánsson Hofi.

Þar næst var kórsöngur Karlakórsins Heimis. Hófst hann með því að kórinn söng afmælisljóð er Gunnar bóndi Einarsson á Bergskála hafði ort til kórsins undir nýju lagi eftir söngstjórann Jón Björnsson. Að lokum var stiginn dans. Hófið fór virðulega fram og var til ánægju þeim er það sátu. Stofnfundur Heimis var haldinn að Húsey í Vallhólmi 2. des. 1927 með 10 þátttakendum. — Þetta var þó ekki fyrsta söngfélagið í sveitum Skagafjarðar. Fyrirrennari þess var Bændakórinn stofnaður í janúar 1917 af 9 bændum og bændasonum, úrvals söngmönnum er voru dreifðir um nokkra hreppa sýslunnar. Bændakórinn starfaði á árunum 1917—1925, en hætti þá störfum, höfðu þá dauðsföll og búferlaflutningar höggvið tilfinnanleg skörð í raðir söngflokksins.

Minningin um Bændakórinn og hrifningin af söng hans lifir enn í hugum eldra fólks í Skagafirði. Stofnendur og hvatamenn að stofnun Heimis voru gamlir félagar úr Bændakórnum, og ungir og upprennandi bændur og bændasynir. Félagið hefir nú starfað óslitið í 30 ár. Er það út af fyrir sig þrekvirki að halda uppi tímafrekum söngæfingum í öll þessi ár, þar sem þátttakendur hafa oft verið búsettir í 5—6 hreppum sýslunnar. Flestir eru bændur, sem ekki hafa annan tíma aflögu til söngæfinga en kvöldin og fyrri hluta nætur, eftir að þeir hafa lokið bústörfum á heimilum sínum.

Svefntíminn verður því stuttur þær nætur er söngæfingar fara fram. Söngstjóri Heimis nær allt þetta tímabil hefir verið og er enn Jón Björnsson bóndi á Hafsteinsstöðum, sem hefir rækt þetta starf af einstökum áhuga og fórnfýsi. Vert er að geta þess að þrátt fyrir erfiðar aðstæður sem greint hefir verið frá, hafa þrír af stofnendum Heimis verið starfandi félagsmenn öll þessi ár, þeir Björn Ólafsson bóndi Krithóli, Halldór Benediktsson bóndi Fjalli, og söngstjórinn Jón Björnsson.

Á þessum 30 árum hefir Heimir haldið samtals 114 opinberar  söngskemmtanir innan héraðs og utan. Auk þess hefir kórinn sungið á héraðssamkomum og við fjölmörg önnur tækifæri í héraðinu. Heimir hefir á þessum þremur áratugum unnið merkilegt menningarstarf í sveitum Skagafjarðar. Hann hefir með söng sínum oft átt sinn þátt í að móta mannfundi í héraðinu og gera þá hátíðlegri en ella hefði orðið, auk ánægjunnar sem söngur Heimis hefir veitt fjölda manna, öll þessi ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir