Konukvöld Freyjanna á morgun

Kiwanisklúbburinn Freyja ætlar að halda konukvöld á morgun, miðvikudaginn 28. mars, á Mælifelli á Sauðárkróki og eru Freyjurnar búnar að undirbúa kvöldið alveg gríðarlega vel, að sögn Sigríðar Káradóttur, forseta Freyju. „Þetta er fjáröflun þannig að þetta verður bæði skemmtun og góðgjörð fyrir þann sem kaupir miða,“ segir hún.

Boðið verður upp á margskonar góðgæti, t.d. kynningar frá Pure Nature, Eftirlæti og Crossfit 550 og tískusýningu. Sigríður segir að hver keyptur miði sé einnig happdrættismiði og eru vinningarnir glæsilegir, svo sem gisting á Hótel Sigló, peningavinningar, leikhúsmiðar, skart frá Sign og margt fleira. Kristín Sigurrós Einarsdóttir sér um veislustjórn og Hvanndalsbræður spila svo á ballinu, miðasala er hafin og kostar miðinn í forsölu 4.000 kr (hjá Lottu og í Gestastofu Sútarans) en 4500 kr. við dyr, húsið opnar kl: 20:00 og dagskrá hefst kl: 20:30, svo geta allir mætt á ballið frá kl: 24:00 og þá kostar miðinn 2.000 kr.

Hvað varð til þess að þið fóruð út í konukvöld?
„Í Kiwanis snýst starfið um að styðja við börn og sérstaklega í nærumhverfi, þetta er fjáröflun hjá okkur og er ætlunin ef vel gengur að styrkja skammtímavistun með því að kaupa sjónvörp sem við vitum að vantar hjá þeim.“

 

 Hvað hafið þið verið að gera í vetur?
„Það eru fundir hjá Freyjum tvisvar í mánuði og er mismunandi hvort við erum með félagsmálafund þar sem við förum ofan í þau félagsmál sem þarf að sinna og erum við að smíða okkar vinnulag í nefndum og stjórn, svo er talsvert af skemmtifundum sem við notum til að þétta raðirnar okkar, hafa gaman og kynnast betur innbyrðis. Það er alveg nauðsynlegt að hlúa vel að okkur sjálfum sem klúbbi þannig náum við að vaxa og dafna í okkar góðgjörðum og sem einstaklingar, við höfum verið með veitingasöluna á Sveitasælu og svo sendum við um 100 kg af hlýjum fatnaði í Konukot í desember. Í febrúar lásum við fyrir börnin á bókasafninu hér á Krók, og nú er það konukvöldið okkar. Við ásamt karlaklúbbnum hér stöndum að afhendingu reiðhjólahjálma fyrir sex ára börn.“

Sigríður segir að á síðasta fundi, sem var sameiginlegur með karlaklúbbnum, hafi átta nýjar Freyjur verið teknar inn í klúbbinn. „Freyjur bjóða allar konur velkomnar sem hafa áhuga á að bæta sitt samfélag og vaxa og dafna sem einstaklingar í uppbyggjandi og hvetjandi félagsskap, svo er bara svo ótrúlega gaman að hjálpa börnum heims,“ segir hún. Vetrarstarfið ætla Freyjur svo að enda á því að fara saman í skemmtiferð til Akureyrar eina helgi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir