Ólína Sif og Missouri State hafa náð frábærum árangri

Ólína Sif, efri röð (tvær stúlkur) til vinstri, ásamt nokkrum stöllum sínum í Missouri State Bears. MYND AF FB-SÍÐU ÓLÍNU
Ólína Sif, efri röð (tvær stúlkur) til vinstri, ásamt nokkrum stöllum sínum í Missouri State Bears. MYND AF FB-SÍÐU ÓLÍNU

Ólína Sif Einarsdóttir knattspyrnustúlka úr Tindastóli hélt síðasta vetur í víking til Bandaríkjanna þar sem hún fékk styrk til að stunda nám og spila knattspyrnu fyrir Missouri State háskólann. Hún er nú annan veturinn í westrinu og skólaliðið hennar náði á dögunum frábærum árangri, þegar þær sigruðu svokallað Missouri Valley Tournament og eru á leiðinni í NCAA úrslitakeppnina í fyrsta skipti í 17 ár.

Blaðamaður Feykis hefur lítinn skilning á keppnisfyrirkomulaginu í Bandaríkjunum og setti sig í samband við Ólínu Sif til að fræðast aðeins um hversu merkilegur árangur Missouri State liðsins væri í raun og veru. „Þetta er allt svoldið flókið hérna,“ svarar hún og hlær, „en NCAA stendur fyrir National Collegiate Athletic Association sem skiptist í 3 deildir; deildir 1, 2 og 3. Hver deild skiptist síðan í margar smærri conference (svæðis) deildir bæði eftir styrkleika og staðsetningu. Þetta virkar síðan þannig að hvert lið spilar við öll liðin í sinni conference deild, og efstu liðin fara síðan í conference úrslitakeppni.“

Hvað er NCAA? „NCAA úr-slitakeppnin er útsláttarkeppni milli allra 1. deildar liðanna sem unnu sína conference úrslitakeppni, liðin sem er raðað hæst á landsvísu komast líka sjálfkrafa inn í NCAA úrslitakeppnina, þannig að í fyrsta umferð eru 64 lið.“

Í hvaða deild er Missouri State? „Við erum í 1. deild ásamt 300 og eitthvað öðrum liðum og spilum í Missouri Valley Conference. Við enduðum í 2. sæti eftir riðlakeppnina sem tryggði okkur beint í undanúrslit og við unnum síðan Missouri Valley Conference úrslitakeppnina þannig að núna erum við í NCAA-keppni 64 liða og drógumst gegn Oklahoma State.“

Þýðir þetta að liðið þitt sé í hópi 64 sterkustu háskólaliða Bandaríkjanna? „Eins og þetta spilaðist núna í ár þá já. Sem er eiginlega frekar ótrúlegt þar sem við höfum ekki unnið conference í 17 ár. Missouri Valley Conference er heldur ekki talin stór conference deild, þannig við erum ekki rankaðar á landsvísu, en ef okkur tekst að vinna Oklahoma State verðum við rankaðar meðal 32 efstu á landinu og spilum væntanlega við Duke.“

Í sumar kom Ólína  heim og spilaði með liði Tindastóls í 1. deild kvenna og var fyrirliði liðsins. Tímabilið í Bandaríkj-unum byrjaði í ágúst þannig að hún yfirgaf Stólana upp úr miðju tímabili hér heima. Hún er eini erlendi leikmaðurinn sem spilar með Missouri State háskólanum og hefur hún verið að spila sem hafsent á þessu tímabili. 

Finnst þér þú hafa bætt þig mikið sem knattspyrnukona úti? „Já, mér finnst ég klárlega hafa bætt mig, sérstaklega núna í ár þar sem ég þurfti að venjast því að spila nýja stöðu og fekk stærra hlutverk. Það er gerð mikil krafa til hafsentanna hérna að tala mikið inni á vellinum og stjórna varnarleiknum sem var virkilega krefjandi, sérstaklega til að byrja með því það er auðvitað allt á ensku en ég hugsa ennþá mest á íslensku. Svo það hefur klárlega ýtt mér út fyrir þægindarammann og hjálpað mér að bæta mig. Svo er líka bara frábært að æfa og spila með svona stórum og góðum hóp, við erum með mjög jafnan hóp þannig að það er mikil samkeppni og þú átt aldrei öruggt sæti í byrjunarliði.“

Ólína Sif er dóttir Einars Gíslasonar (Antons) og Helgu Dóru Lúðvíksdóttur og því búin að sparka mörgum boltum fyrir Tindastól í gegnum tíðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir