Valdís Valbjörns fær Vind í seglin

VALDIS
VALDIS

STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) stóðu nýverið fyrir mentor-verkefninu Vindur í seglum að tillögu nýstofnaðrar jafnréttisnefndar sambandsins. Um er að ræða átak fyrir konur, og önnur kyngervi í minnihluta, og er ætlað til að styðja áhugasama höfunda við að fóta sig og koma verkum sínum á framfæri. Margar umsóknir bárust og margar áhugaverðar en á meðal þeirra þriggja sem urðu fyrir valinu var Króksarinn Valdís Valbjörnsdóttir.

Á síðu STEF segir: Valdís er 20 ára söngkona frá Sauðárkróki. Hún hefur sungið frá unga aldri og tekið þátt í alls konar tónlistarverkefnum. Árið 2018 tók hún þátt í Söngkeppni Framhaldsskólanna og sigraði símakosninguna. Haustið 2019 stundaði hún söngnám í Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn og nú síðast tók hún þátt í verkefninu Tónaflóð um landið með hljómsveitinni Albatross. Hún byrjaði að gefa út sitt eigið efni á þessu ári.

„Þetta er frábært tækifæri og mikill heiður að vera valin, því í þessu verkefni fæ ég möguleika á að vinna með og fá ráðleggingar frá reyndu fólki í bransanum,“ sagði Valdís í spjalli við Feyki.

Auk Valdísar voru það Alexandra Björk Elfar og Fríða Hansen sem voru valdar til að taka þátt í verkefninu sem nær yfir sex mánaða tímabil. Markmiðið er að hvetja og aðstoða þátttakendur með verkefni sín (sem eru nú þegar í gangi). Þátttakendur geta valið sér frá einum og upp í þrjá leiðbeinendur, t.d. einn sem aðstoðar við kynningarmál og annan til aðstoða við listsköpun svo eitthvað sé nefnt. Meðal þeirra fjölmörgu sem hafa gefið kost á sér í hlutverk leiðbeinenda eru Salka Sól (tengdadóttir Skagafjarðar), Páll Óskar, Ragnheiður Gröndal, Halldór Gunnar Pálsson, Svavar Knútur og Hafdís Huld.

Sjá nánar á STEF >  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir