Ber og aftur ber

Bláberja Panna cotta.
Bláberja Panna cotta.

Þessi matarþáttur birtist í Feyki, 31. tbl. ársins 2017 Það er umsjónarmaður þáttarins sem skrifar:
Nú haustar að og þá er fátt betra en að drífa sig í berjamó. Úr alls konar berjum er hægt að útbúa margs kyns dýrindis rétti og ætla ég að gefa ykkur nokkrar uppskriftir þar sem bláberin eru í aðalhlutverki.  Möguleikanir eru ótal margir eins og sést ef maður gúgglar orðið bláber, s.s. að nota berin í þeyting (boost), baka úr þeim pæ, muffins og fleira, í marineringar á kjöt, í sósur með villibráð og svo auðvitað í alls konar eftirrétti. Berin má nota jafnt fersk sem frosin, mér þykir t.d. betra að þau séu búin að frjósa þegar ég bý til pæ úr þeim. En best og hollast er auðvitað að borða berin bara eins og þau koma fyrir af lynginu. 

RÉTTUR 1
Dásamlegur bláberjaís

300 g fryst eða fersk bláber
3 dl rjómi
3 egg
1 tsk vanillusykur
5 msk flórsykur 

Aðferð:
Þeytið eggin, vanillusykurinn og flórsykurinn saman. Bætið bláberjunum út í og þeytið örlítið svo bláberin kremjist aðeins og liti hræruna bláa. Þeytið rjómann og hrærið varlega saman við. Setjið í form og frystið. Hrærið í eftir u.þ.b. tvo tíma svo bláberin sökkvi ekki öll til botns. Frystið í tvo tíma til viðbótar (eða lengur). 

RÉTTUR 2
Bláberja Panna cotta

Þetta er tiltölulega auðveld uppskrift að virkilega ljúffengum eftirrétti. Að mínu mati passar uppskriftin vel fyrir sex en það má stækka skammtana og hafa þá fjóra eða fimm, allt eftir því sem hver vill.

Panna cotta:

2 dl rjómi
3 msk sykur
2 tsk vanillusykur
3 blöð matarlím
90 g sýrður rjómi 

Aðferð:
Matarlímsblöð eru lögð í bleyti (farið eftir leiðbeiningum á umbúðum). Rjómi, sykur og vanilludropar sett í pott og hitað að suðu. Slökkt undir og látið kólna örlítið. Matarlímsblöðin sett út í og þeytt vel saman. Þá er sýrða rjómanum hrært vandlega saman við. Sett í sex falleg glös og látið kólna og stirðna inni í ísskáp í u.þ.b. klukkustund.

Berjafrauð:
2½ dl bláber
1 msk sykur
3 blöð matarlím
1½ dl rjómi, þeyttur
bláber til skrauts 

Aðferð: 
Þeytið rjómann og geymið í kæli. Maukið berin í matvinnsluvél. Setjið í pott með sykri og hitið að suðu, sykurinn þarf að leysast upp og þetta þarf því ekki að sjóða. Kælið. Leysið matarlímsblöðin upp.  Hrærið matarlíminu vel og vandlega saman við maukið og þegar það hefur kólnað aðeins er því hrært varlega saman við þeytta rjómann svo að blandist vel. Hellt ofan á panna cotta lagið í glösunum. Sett í ísskáp og látið stirðna í u.þ.b. 1 klst.
Ferskum eða frosnum bláberjum er dreift yfir um leið og rétturinn er borinn fram. 

RÉTTUR 3
Sérlega einfalt bláberjapæ

100 g smjör
3 msk sykur
1 dl hveiti
1 dl haframjöl
3 dl bláber
1 msk kartöflumjöl eða maisenamjöl (ath. maíssterkja, ekki sósujafnari)
½ msk sykur

Aðferð:
Blandið saman bláberjum, kartöflumjöli og sykri og setjið í pæform. Hrærið linu smjöri, þremur matskeiðum af sykri, hveiti og haframjöli saman og dreifið yfir berin. Bakið í ofni við 225°C í 30-40 mínútur. Berið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir