Elvis-borgari og ferskjubaka

Sólveig Hulda og Vilhelm. Mynd aðsend
Sólveig Hulda og Vilhelm. Mynd aðsend

Matgæðingur vikunnar í tbl 3 í ár var Vilhelm Vilhelmsson en hann er með doktorspróf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og starfar sem forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Hann er kvæntur Sólveigu Huldu Benjamínsdóttur, safnafræðingi og forstöðumanni safna í Húnaþingi vestra. Þau eiga fjögur börn á aldrinum eins til þrettán ára svo það er aldrei lognmolla á þeirra heimili. Vilhelm og Sólveig búa í Húnaþingi vestra þar sem þau eru bæði fædd
og uppalin.

RÉTTUR 1
Elvis-borgari

600 g hakk
½ bolli hnetusmjör
1 msk. smjör
2 bananar, sneiddir
2 tsk. púðursykur
8 sneiðar beikon
8 sykurhúðaðir kleinuhringir
steikingarolía
salt og pipar

Aðferð: Mótið fjóra 150 g borgara úr hakkinu og steikið í olíu á pönnu á frekar háum hita. Kryddið með salti og pipar. Smyrjið fullsteikta borgarana með hnetusmjöri og geymið á diski undir álpappír. Samtímis á að steikja beikonið á sér pönnu (fínt að nota AirFryer líka) eins og þið viljið hafa það, hvort heldur stökkt eða léttsteikt. Þurrkið létt af pönnunni og bræðið svo smjörið á pönnunni á miðlungshita. Bætið bönunum og púðursykri saman við og hrærið saman. Látið bananana steikjast í nokkrar mínútur, eða þar til þeir eru mjúkir og gljáðir. Setjið hvern hamborgara ofan á kleinuhring, tvær sneiðar af beikoni, slatta af bönunum og annan kleinuhring ofan á. Með borgurunum er gott að hafa franskar kartöflur. Þá er upplagt að gera sína eigin sósu til að dýfa í, til dæmis eftirfarandi sósu:

Hunangs-Sriracha Aioli sósa:

½ bolli majónes
1-2 msk. sriracha sósa
1-2 tsk. hunang
1 tsk. sítrónusafi
1 hvítlauksrif kramið

Aðferð: Blandið öllum hráefnum saman í skál og hrærið vel þar til sósan er mjúk og kekkjalaus. Geymist í kæli.

RÉTTUR 2
Ferskjubaka

Botn:
8 ferskjur
¼ bolli sykur
¼ bolli púðursykur
½ tsk. kanill
½ tsk. engifer
¼ tsk. múskat

Toppur:
1 bolli hveiti
¼ bolli sykur
¼ bolli púðursykur
1 tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
½ tsk. kanill
½ engifer
½ bolli smjör
½ bolli heitt vatn

Aðferð: Afhýðið ferskjur og skerið í bita. Blandið öllu innihaldi grunnsins saman í stórri skál og hrærið með höndunum þar til allar ferskjurnar eru vel hjúpaðar. Setjið í eldfast mót. Blandið svo öllum þurrefnum toppsins saman í skál. Notið hendur til að mylja smjör saman við blönduna. Bætið heitu vatni við og blandið vel saman. Dreifið deiginu jafnt yfir ferskjurnar og bakið við 200°C í 35-40 mínútur eða þar til bakan er gullinbrún á lit. Gott er að borða ferskjubökuna með ís eða rjóma.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir