Er eins og við flest

Þórhildur María er matgæðingur af líf og sál en hún sá um matarþáttinn í tbl. 40 í Feyki núna í október. Þórhildur eða Tóta eins og hún er kölluð finnst fátt skemmtilegra en að smakka mat og prufa nýja rétti. „Ég gef mér samt oft of lítinn tíma til að elda heima og er bara eins og við flest, eldamennskan má helst ekki taka neinn tíma, kvöldmaturinn þarf helst að vera klár á 20 mínútum og max 40 mínútur þá með frágangi í eldhúsinu. En ef við ætlum að gera hlutina frá grunni taka þeir bara aðeins lengri tíma. Ég ætla að gefa ykkur hér tvær mjög ólíkar uppskriftir sem er gott að njóta á haustin. Haustið er tími sem við viljum heita rétti sem ylja og veita ánægju,“ segir Tóta.

RÉTTUR1

Haustlegur pottréttur

Þessi er svakalega auðveldur og fellur næstum undir að taka engan tíma þegar horft er framhjá eldunartímanum en þessi réttur er settur í pott og inn í ofn. Þarf ekkert að hugsa um hann.

Þetta er réttur fyrir 4-6 manns

1 kg gúllas má vera ær, naut, folald, geit bara eftir því sem hentar

1 stk. laukur, gróf saxaður

2 stk. sellery stilkar, gróf skornir

6 stk. gulrætur, gróf skornar

2 bollar tómatsafi

2 tsk. salt

1 tsk. sykur

Þetta er allt sett í pottinn og honum lokað. Potturinn settur inn í ofn á 170°C í 1 ½ til 2 tíma eða þar til kjötið er orðið mjög mjúkt, fer eftir hvaða kjöt er notað. Ef hitinn er lækkaður t.d. niður í  150°C þá er tíminn bara lengdur á móti. Með þessu er best að hafa góða kartöflumús og þar er einfaldleikinn bestur. Stappaðar soðnar íslenskar kartöflur, smjör, mjólk, salt og ef til vil smá múskat.

RÉTTUR2

Ramen núðlur

Veit ekki alveg afhverju þessi réttur kom upp í hugann minn. Hef bara eldað hann tvisvar en er frekar ánægð með hann, þó ég viti ekkert hvernig Ramen núðlur eiga að smakkast í raun og veru. Ákvað að prufa að gera Ramen núðlur eftir að hafa horft á matreiðsluþátt sem vakti áhuga minn á þessum rétti, þar var þessi réttur lofsamaður og ég hugsaði  „hvað er svona merkilegt við núðlurétt“

Ákvað að prufa þessa uppskrift og komst að því að þetta er ótrúlega góður kósý réttur, huggulegur í haustinu og lyftir núðlum upp á hærra plan.

Veit að margir hætta að lesa hér en best er að sjóða kjúklinginn sem á að nota. Þá ertu þú klár með kjúklinginn og soðið í réttinn. Þessi uppskrift er fyrir 6-8 manns

Soðinn kjúklingur, heill kjúklingur hlutaður niður og settur í pott.

1.8 l vatn

2 stk. gulrætur

1 stk. laukur

2 stk. hvítlauksrif

2 stk. lárviðarlauf

10 stk. svört piparkorn

Aðferð:

Suðan látin koma upp rólega og soðið í ca 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúin.

Takið kjúklinginn upp úr, rífið niður og haldið heitum. Sigtið soðið og notið í kryddaða soðið.

Kryddað soð

Fyrir 6-8 manns

6-8 sneiðar af beikoni, saxað

5 cm engifer ferskur, saxað 

6 bollar kjúklingasoð (hægt að nota tening)

4 msk. soyjasósa

1/2 bolli hrísgrjónaedik

2 msk. chili paste

1 msk. rautt karrý paste

30 g þurrkaðir sveppir

2 msk. sesamolía

2 bollar spínat, stilkur tekinn af

1 bolli kóriander ferskt

Sjávarsalt eftir smekk

 

6-8 skammtar ramen núðlur soðið sér

6-8 egg, soðin sér, tekið utan af og skorin til helminga.

Gulrætur, vorlaukur og chili skorið í strimla og sett ofan á.

 

Aðferð:

Steikið beikon og svo engiferið létt í potti.

Setjið kjúklingasoðið, soyjasósuna, hrísgrjónaedikið, chili paste, rautt karrý paste, þurrkuðu sveppina og sesamolíuna í pottinn og sjóðið við vægan hita í 10 mínútur. Að lokum bætið við spínati, kóriander og rifnum kjúklingi. Þá er komið að því að raða réttinum saman þegar kryddsoðið, núðlunar, eggin og grænmetið er klárt. Hægt að setja í tvær skálar eða allt í eina. Ef sett er í tvær er núðlunum haldið sér. Kjúklingurinn er settur í botninn á skálinni, kryddsoðið með spínati og kórander sett yfir. Ofan á þetta er sett grænmetisstrimlar; gulrætur, vorlaukur og chili eftri smekk. Til að toppa þetta er soðið egg, skorið í tvennt sett ofan á. Skemmtilegur réttur  sem kryddar upp haustið og svo er hægt að fara alla leið og búa til sínar eigin núðlur. Hef ekki farið þá leið en kanski síðar...

 

Langar að skora á vinnufélagann minn hann Halldór G. Ólafsson en hann er í Matarþætti Feykis í blaðinu sem kom út á miðvikudaginn, tbl 43.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir