Hægeldaðir lambaskankar

Lambaskankar. Aðsend mynd.
Lambaskankar. Aðsend mynd.

Uppskrift vikunnar birtist í tólfta tölublaði ársins 2018. Hún kemur frá Kristni Bjarnasyni og móður hans, Guðlaugu Jónsdóttur, á North West Hóteli í Víðigerði en fjölskyldan hefur rekið hótel og veitingasölu þar frá árinu 2014. Þau buðu upp á hægeldaða lambaskanka með rauðvínssoðsósu, basil-parmesan kartöflumús, sykurgljáðum gulrótum og pikkluðu salati. Uppskriftin er fyrir tvo. 

Skankar og sósa

2 lambaskankar
3 hvítlauksgeirar
1 laukur
1 gulrót
1 vorlaukur
250 ml rauðvín
2 lárviðarlauf
1 msk. sítrónusafi
1 dós skornir tómatar með vökva
½ l vatn
2 teningar (1 nauta, 1 kjúklinga)
1 peli rjómi
1 msk. ferskt rósmarín (eða 1 tsk. þurrkað) 

Aðferð:
Kryddið kjötið með salti og pipar. Steikið það upp úr olíu eða smjöri á öllum hliðum í potti, 6-10 mínútur, fer eftir stærð. Fjarlægið skanka úr pottinum. Steikið lauk, gulrætur, hvítlauk og vorlauk í pottinum þar til það hefur brúnast. Bætið svo restinni af hráefnunum út í (fyrir utan rjómann) og setjið skankana aftur í pottinn og fáið upp suðu. Lækkið svo hitann og látið malla í 2-2½ tíma og snúið skönkunum á hálftíma fresti. Fjarlægið skanka og lárviðarlauf úr potti og maukið sósuna með töfrasprota. Bætið rjóma út í og smakkið til með krafti, salti, pipar og sykri ef þið viljið hafa hana sætari. Bætið smá vatni í ef ykkur finnst hún of bragðmikil. Það er líka djúsí að setja 1 msk af rjómaosti ef hann er til. 

Basil-parmesan kartöflumús

2 afhýddar bökunarkartöflur, skornar í bita
2 msk. ferskur basil, smátt skorinn
2 msk. fínt rifinn parmesan
2 msk. smjör
2 tsk. gróft salt

Aðferð:
Setjið kartöflur í pott, hyljið með vatni og bætið 1 tsk af salti við. Fáið upp suðu og lækkið þá hitann og látið malla í u.þ.b. 10 mín. Þegar þær eru eldaðar í gegn eru þær fjarlægðar af hitanum og stappaðar saman með basil, parmesan, grófu salti og smjöri. 

Sykurgljáðar gulrætur

1 gulrót á mann 

Aðferð:
Skerið gulrætur í ræmur eða sneiðar. Hitið smá olíu á pönnu yfir miðlungshita og bætið gulrótum, salti og pipar út á og steikið í 3-4 mínútur. Bætið þá púðursykri á pönnuna og látið malla í allt að 10 mín en passið að bæta smá vatni út á þegar sósan er byrjuð að þykkna til að þetta brenni ekki allt saman. Þegar gulræturnar eru eldaðar í gegn má bæta smjöri út á og bræða það saman við. 

Pikklað salat
Lögur
2 dl hvítvínsedik
2 dl vatn
½ dl sykur
½ tsk. salt
nokkur sellerífræ

Salad
½ lítill (íslenskur) hvítkálshaus
½ rauð paprika
½ gúrka 

Aðferð:
Hrærið saman löginn og látið standa. Skerið salatið allt smátt. Ég skar hvítkálið og paprikuna í ræmur en gúrkuna í sneiðar og svo í fernt. Hellið leginum yfir salatið þegar sykurinn er alveg uppleystur. Geymið í lokuðu íláti í nokkrar klukkustundir inni í ísskáp.

Gaman að skreyta með ferksum basil ef hann fór ekki allur í músina.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir