Heimagerðir hamborgarar og hollari sjónvarpskaka

Matgæðingarnir Arnrún og Kristján ásamt dóttur sinni. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Arnrún og Kristján ásamt dóttur sinni. Aðsend mynd.

Hjónin Arnrún Bára Finnsdóttir og Kristján Ásgeirsson Blöndal lögðu til uppskriftir í matarþátt Feykis í 18. tbl. 2018. Þau búa á Blönduósi þar sem Kristján er fæddur og uppalinn en Arnrún kemur frá Skagaströnd. Kristján er annar stýrimaður á Arnari HU 1 og Arnrún starfar sem hárgreiðslumeistari auk þess að vera í kennaranámi. Jafnframt reka þau litla smábátaútgerð. „Við hjónin leggjum mikið upp úr hreinu mataræði og gerum flest alveg frá grunni. Þessir hamborgarar eru lostæti og slá alltaf í gegn. Þeir eru svo miklu betri en þessir „venjulegu”. Við mælum eindregið með að fólk prófi og sé ekki hrætt við sætkartöflubrauðin. Þau eru mjööög góð, við lofum,“ segja þau Arnrún og Kristján.  

AÐALRÉTTUR
Heimagerðir hamborgarar með sætkartöflu-,,brauði”
Fullkomnir á grillið - Slá alltaf í gegn 

Hamborgarar:
500 g hreint nautahakk
1 egg
1½ tsk. Worchestershire sósa
½ rifinn piparostur eða annar ostur
1 hvítlauksrif – maukað – má sleppa
1-2 msk. Husk (til að binda hakkið saman)
dass af sítrónupipar
dass af salti
dass af ítalskri hvítlauksblöndu 

Sætkartöflubrauð:
Skerið stóra sæta kartöflu í u.þ.b.1 cm þykkar sneiðar. Berið á þær ólífuolíu og kryddið með salti og pipar. Setjið inn í ofn á blástur, 200°C í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til þær eru tilbúnar.
Sætkartöflubrauðin eru svo sett ofan á og undir alveg eins og venjuleg hamborgarabrauð nema bara miklu betri og hollari! 

Heimagerðar franskar:
Skerið kartöflur í litlar franskar og dreifið þeim jafnt á bökunarplötu. Spreyið yfir með PAM-spreyi. Setjið inn í ofn á blástur, 200°C í u.þ.b. 20 mínútur. Þær eru tilbúnar þegar þær eru orðnar gullnar. 

Framreiðsla:
Hamborgararnir eru bestir með osti ofan á, smjörsteiktum sveppum, beikoni og ef til vill einu steiktu eggi. Toppað með sósum eftir smekk en BBQ sósa skemmir ekki fyrir. 

EFTIRRÉTTUR
Sjónvarpskaka í aðeins hollari búning 

300 g hrásykur/ kókospálmasykur
4 egg
250 g spelt
2 tsk. lyftiduft
2 tsk. vanillusykur
2 dl mjólk
50 g smjör 

Aðferð:
Þeytið sykurinn og eggin saman. Setjið þurrefnin saman í skál. Bræðið mjólkina og smjörið í potti. Setjið þurrefnin, mjólkina og smjörið saman við eggin og hrærið þar til deigið er laust við kekki.
Bakið kökuna í 15 mínútur á 180°C. 

Kókoskaramella:
125 g smjör
125 g kókospálmasykur
100 g kókosmjöl
4 msk. mjólk
Sett yfir kökuna og bakað í aðrar 15 mínútur eða þar til kakan og kókoskaramellan eru tilbúnar. 

Arnrún lætur þennan fróðleiksmola um kókospálmasykur fylgja með en hann er fenginn frá himneskt.is: Kókospálmasykur er bragðgóð sæta sem hefur lægri sykurstuðul en margir aðrir sætugjafar. Hann er óbleiktur og hægt er að nota hann alveg í staðinn fyrir hvítan sykur í allri matargerð, sem og í bakstri og RAW fæði. Hann er mjög bragðgóður með karamellukeim og svipar til púðursykurs.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir