Sælkeraýsa og súkkulaðikökur á eftir

Matgæðingarnir Þorgeir og Sigríður Margrét.
Matgæðingarnir Þorgeir og Sigríður Margrét.

Matgæðingar vikunnar í 13. tbl. Feykis árið 2018 voru Sigríður Margrét Ingimarsdóttir, yfirþroskaþjálfi í Árskóla, og Þorgeir Gunnarsson, sölumaður í lagnadeild KS verslunarinnar Eyri. Þau gáfu lesendum girnilegar uppskriftir og sögðu að Þorgeir hefði gaman af að elda og prufa eitthvað nýtt og sæi gjarnan um að matbúa meðan Sigríður Margrét sæi frekar um eftirréttina, sem henni þykja ómissandi. Sælkeraýsuna fann Þorgeir í litlu riti frá kvenfélagi á Álftanesi og er í miklu uppáhaldi hjá honum.

AÐALRÉTTUR
Sælkeraýsa (fyrir 4-6)

800 g ýsuflök (roðlaus og beinlaus)
100 g rjómaostur
1 dl rjómi
2 tsk karrí
1 tsk Kød og grill eða annað sambærilegt
½ tsk sítrónupipar
1 stk. laukur
1 stk. paprika
4 stk. gulrætur
2 stk. gul eða græn epli
1 msk olía til steikingar

Aðferð:
Afhýðið eplin og skerið í teninga. Skerið laukinn og paprikuna í bita og gulræturnar í sneiðar. Mýkið laukinn á pönnu, bætið papriku út í og látið krauma með lauknum og að síðustu eplin og gulræturnar. Stráið karrí yfir pönnuna og látið rjómaostinn því næst bráðna á pönnunni og hellið rjómanum yfir. Skerið fiskinn í lítil stykki og leggið yfir pönnuna. Stráið Kød og grill og sítrónupipar yfir. 
Látið lokið á pönnuna og sjóðið við vægan hita í 5 – 10 mínútur. Ef vill, þá má nota sósujafnara.

Meðlæti:
Hrísgrjón eða kartöflur og gott hvítlauksbrauð. 

EFTIRRÉTTUR
Blautar súkkulaðikökur 

140 g smjör
140 g 70% súkkulaði
2 egg
3 eggjarauður (til viðbótar)
140 g flórsykur
60 g hveiti

Aðferð: 
Smjörið og súkkulaðið brætt saman yfir vatnsbaði. Eggin og eggjarauðurnar eru þeyttar saman. Flórsykrinum er bætt út í blönduna og síðan er hveitið sett saman við. Í lokin er súkkulaðiblöndunni hrært varlega saman við með sleikju.
Þetta er sett í 6-8 lítil bökunarform, smurð að innan (einnig hægt að nota pínulítil álform). Ofnhiti: 220 gráður (ekki blástur).
Þetta er sett í ofninn þegar hann er orðinn heitur. Ef deigið er við stofuhita er þetta bakað í 11-12 mínútur. Ef deigið er tekið úr kæli og bakað þá skal þetta bakast í 14 mínútur. Þegar formin eru tekin úr ofninum þá er gott að bíða í 3 mínútur, hvolfa hverju og einu á disk, þá dettur kakan léttilega úr forminu. Borið fram heitt með ís eða rjóma. 
Það er hægt að búa deigið til og geyma í ískáp í nokkra daga áður en það er notað.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir