Skaflasteik og eftirréttur óbyggðanna

Matgæðingarnir Hafdís, Gísli og Stefán. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Hafdís, Gísli og Stefán. Aðsend mynd.

„Við þökkum fyrir áskorunina frá Steinunni og Sigga. Stefán hefur í gegnum tíðina ferðast mikið á fjöllum og er uppáhaldsmaturinn hans svokölluð skaflasteik. Það er því kærkomið að segja ykkur frá því hvernig slík steik er matreidd en hana má grilla jafnt í holu í jörðinni sem og í holu sem grafin er í skafl. Eftirrétturinn er svo réttur sem varð til úr afgöngum í hálendisgæslu Skagfirðingasveitar sumarið 2015 en við erum bæði virkir félagar í björgunarsveitinni,“ sögðu þau Hafdís Einarsdóttir, kennari við Árskóla, og Stefán Valur Jónsson, starfsmaður Steypustöðvarinnar á Sauðárkróki sem voru matgæðingar Feykis í 44. tbl. ársins 2018.

AÐALRÉTTUR
Skaflasteik

lambalæri
Heiðmerkurblanda (eða krydd að eigin vali)
olía

Aðferð:
Úrbeinið læri þremur dögum fyrr, leggið í kryddlög. Okkar uppáhalds krydd er Heiðmerkurblanda. Þá blöndum við hana með olíu og dreifum yfir kjötið. Geymið kjötið í kæli. Þegar á að fara að grilla lærið er það vafið í fjórfalt lag af álpappír. Kjötið er svo lagt ofan á heit kol (vel grá) og gott er að láta steina eða steinflögur undir kolin til að hitinn nýtist betur. Kjötið haft á kolunum í um það bil 30 mínútur og svo snúið við, látið liggja í aðrar 30 mínútur og þá snúið og haft um það bil 15 mínútur á hvorri hlið.

Sveppasósa

½ líter rjómi
slatti af sveppum
olía
sveppateningur
sósuþykkni

Aðferð:
Sveppirnir steiktir létt í olíu á pönnu eða í potti, rjóminn settur út í og látið malla í dágóðan tíma. Sveppateningur settur saman við og sósan þykkt eftir smekk. Sósan smökkuð til eftir að sósuþykkni hefur verið bætt í. Saltað að auki eða hálfum sveppateningi bætt í.

Salat

iceberg
spínat
vínber
gúrka
tómatar
jarðaber
paprika
fetaostur
salatblanda (hnetur)

Skorið að vild og blandað saman.

EFTIRRÉTTUR
Eftirréttur óbyggðanna

kex - ýmsar tegundir
rjómi
súkkulaði
rúsínur og fleira gómsætt sem hægt er að tína til.

Aðferð:
Kex mulið í botninn á formi. Rjómi þeyttur í gosflösku (tveggja lítra flösku ef um hálfan líter er að ræða - athugið að það á eftir að koma ykkur á óvart þegar þið komist að því hversu fljótleg þessi aðferð er) og settur ofan á kexið. Súkkulaðið brætt og hellt yfir rjómann. Ávöxtum eða öðru góðgæti bætt við efst á kökuna eða blandað saman við rjómann.

Á meðan beðið er - snúrubrauð fyrir börnin

Það er alltaf gaman fyrir börn að grilla brauð yfir opnum eldi eða heitum kolum. Ef þau eru ekki mikið fyrir lambakjöt má leyfa þeim að setja pylsur inn í brauðið og grilla. Þá þarf að passa að setja ekki of mikið brauð utan um pylsurnar vegna þess að brauðið brennur þá áður en pylsurnar ná að hitna.

2 dl volgt vatn
5 dl hveiti
2 tsk. þurrger
2 msk. matarolía
1 msk. salt
1 msk. pizzakrydd
1 tsk. hvítlaukssalt

Aðferð:
Öllu blandað saman, hnoðað og látið hefa sig í u.þ.b. 60 mínútur. Vafið á grillpinna og grillað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir