Ýmislegt í boði frá Stórhóli í Lýtingsstaðahreppi

Sigrún á Stórhóli í góðum félagsskap
Sigrún á Stórhóli í góðum félagsskap

Það eru allmargir smáframleiðendur sem hafa verið að bjóða upp á afurð í verkefninu Smáframleiðendur á ferðinni en það er verkefni þar sem framleiðendur geta verið með vörur sínar til  sölu í sendibíl sem ferðast um Norðurland vestra á tilteknum tímum á tilteknum stöðum.

Feyki langaði til að kynna þá sem hafa verið að bjóða upp á afurðir sínar í þessum bíl og byrjum við á þeim hjónum á Stórhóli í Lýtingsstaðahreppi, Sigrúnu Indriðadóttur og Þórarni Sverrissyni. Þau eru með sauðfé, geitur og hross með meiru en einnig er staðsett lítil verslun á bænum sem heitir Rúnalist Gallerí. Þar selja þau vörur úr afurðum dýranna og bjóða m.a. upp á geita- og kiðlingakjöt, ær- og lambakjöt, andaregg, geitastökur, geitafiðu (kasmír), sauða- og lambaband. Í Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd vinna þau allar sínar vörur sjálf en Sláturhús SAH á Blönduósi sér um að slátra fyrir þau. 

„Hjá okkur á Stórhóli er hægt að komast í snertingu við íslensku landnámsgeitina, heyra um hana fróðleik og sögur.“ En í Rúnalist Gallerí eru einnig gamlir munir og verkfæri sem eiga sína sögu. „Oft er tekið ofan af, kembt og spunnið á halasnældu eða rokk fyrir gesti. Sögur sagðar af ferhyrndu og ferukollóttu, þráðaleggjum, pungum, hákörlum og keisaraskurðum,“ segir Sigrún.

Þar sem þau eru í samtökunum Beint frá býli þá bjóða þau upp á ýmislegt góðgæti í afurðakistunni sinni og má þar nefna kiðlingalæri, kiðlettur, geitabita (grafið geitakjöt), huðnubita (léttreykt og grafið geitafille), ærgæti (grafið ærlæri), smalabita (léttreykt og grafið sauðafille), heldrimannabita (tvíreykt ærkjöt), hafra havarta, ærborgara og margt fleira. En þetta ásamt ýmsu öðru frá henni er einnig hægt að versla á heimasíðunni þeirra, www.runalist.is og í nýju netversluninni á www.vorusmidja.is. Þau er ekki bara hluti af verkefninu Smáframleiðendur á ferðinni heldur taka þau einnig þátt í verkefninu REKO.

Feykir spurði Sigrúnu hvort hún gæti gefið lesendum nokkrar uppskriftir með þeim afurðum sem hún er að bjóða upp á og var hún nú ekki lengi að senda frá sér nokkrar girnilegar hugmyndir.

     

Snittur – sniðugt t.d. sem forréttur á jólunum

Eins og kom fram hér að ofan bjóða þau upp á ærgæti, geitabita, smalabita og huðnubita en þeir henta allir mjög vel í ær- og geitasnittur. Einnig er hægt að nota allt þetta kjöt á hlaðborðum en þá er hægt að setja uppsetninguna í sparibúning á fallegt fat. Þá er kjötið skorið í þunnar sneiðar og raðað smekklega með t.d. salati og berjum eða öðrum ávöxtum.

Sósa til að nota á snitturnar eða hlaðborðsfatinu

4-5 msk. sýrður rjómi

2 tsk.  t.d. hrútaberjasulta frá Holt og heiðum

Kiðlingakótilettur

Best er að krydda þær með nýsöxuðu birkilaufi og ef það er ekki í boði þá er hægt að krydda með Birkite frá Holt og heiðum en það inniheldur einungis þurrkað birkilauf. Smávegis af nýmöluðum svörtum pipar og smávegis af íslensku salti, má setja nokkra dropa af olíu en ekki nauðsynlegt.  Best er að láta kiðletturnar liggja í kryddinu yfir nótt. Grilla svo með viðhöfn og borða með grilluðum kartöflum, góðu skagfirsku salati með skagfirskum geita-salatosti frá Brúnastöðum. Þá er piparostasósa eða annars konar ostasósa mjög góð með þessum kiðlingakótilettum.

   

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir