Rabb-a-babb 102: Vala Kristín

Nafn: Vala Kristín Ófeigsdóttir
Árgangur: 1987
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Helga Hrannari og á með honum tvö börn, þau Valþór Mána og Dagmar Helgu .
Búseta: Kirkjugata 9 á Hofsósi
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er dóttir Ófeigs Gestssonar og Dagmarar Ásdísar frá Þrastastöðum. Er að mestum hluta alin upp á Hofsósi að utanskildum 7 árum á Blönduósi.
Starf / nám: Kenni í Grunnskólanum austan Vatna og er nemi í viðburðarstjórnun á Hólum.
Hvað er í deiglunni:  Verknám í viðburðarstjórnun, Katy Perry tónleikar í Manchester og almenn gleði.

Hvernig nemandi varstu? Ég var fyrirmyndarnemandi í grunnskóla, kannski ekkert sérstaklega frábær nemandi í háskóla enda margt annað að gera á fullorðinsaldri en að sitja heima og lesa.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég var fermd í Hofskirkju þann 19. maí. Að athöfn lokinni var mikið um myndatökur fyrir utan kirkjuna enda dásemdar veður. Það vildi ekki betur til en ég gleymdist á Hofi. Ég dokaði við í smá stund og var að lokum sótt af móður í tremmakasti.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Kennari eða sauðfjárbóndi.

Hvað hræðistu mest? Ótímabær dauðsföll og heilsubrest.

Besti ilmurinn? Af nýfæddu barni.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég er nú mikill trendsetter í tónlistarbransanum. Ég og vinirnir hlustuðum mikið á Villa Vill, Óskar Pétursson, Helenu Eyjólfs og fleiri snillinga.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? I will survive, enginn vafi!

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi ekki mikið á sjónvarpið, en ég reyndi oft að sjá Banshee þrátt fyrir að hafa verið óglatt allan tímann og tuðað yfir stöðugum óhugnaði. En núna er ég ekki lengur með stöð 2 svo það er liðin tíð. Það þarf ekki að óttast voðaverkin í Kiljunni.

Besta bíómyndin? Hér var ég búin að hugsa mikið og velta upp mörgum valkostum, upp í hugann komu margar myndir með Morgan Freeman enda er hann einn af mínum uppáhalds. Svo þegar öllu var á botninn hvolft þá verð ég að segja að Stella í orlofi er klárlega besta bíómyndin. Það kemst enginn með tærnar þar sem Salómon Gustafson hefur hælana.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Ætli ég verði ekki að segja Hrund Jóhannsdóttir, að hún sé minn uppáhalds íþróttamaður. Á eftir henni kemur Gunnar Nelson.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Það er nú ekki margt, þar sem Helgi er afar vandvirkur. Ætli ég eldi ekki aðeins bragðbetri mat og þrífi klósettið betur. Eins tel ég mig vera betri nuddara.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Humarsúpa.

Hættulegasta helgarnammið? Bland í poka í KS Hofsós á 50% afslætti og kók í dós.

Hvernig er eggið best? Soðið með kavíar.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég gleymi hvar ég læt hlutina. Það er mjög pirrandi. Ekki bara fyrir mig heldur líka fyrir aðra.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Má bara segja eitt atriði? Þá er það sérhlífni. Ef ég má segja mörg atriði þá eru það óheiðarleiki, frumkvæðisleysi og mislyndi.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Ég geri ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn. Sódóma Reykjavík er mín heimsspeki.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar allir hænuungarnir á Þrastastöðum drekktu sér í vatnsbala og Valdís systir grenjaði úr sér augun. Ætli ég hafi ekki verið svona þriggja ára, þessar grenjur eru mjög eftirminnilegar.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Það væri ekki amalegt að vera Angelina Jolie af augljósum ástæðum – hún á svo mörg börn.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Þessa dagana les ég aðallega barnabækur og námsbækur. Ég nýt þess nú meira að lesa barnabækurnar en Einar Áskell og Tóta tætubuska eru í sérlegu uppáhaldi.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ég læt fara í taugarnar á mér þegar aðrir í kringum mig festast í frösum og setningum. Ég reyni því eftir mesta megni að fá ekkert svona á heilann.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Ég verð að segja að mamma mín sé mikilvægasta persónan í mínu lífi, bæði fyrr og síðar. Enda sést það best á því að ég kaus að kaupa mér hús við hliðina á henni.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi bregða mér í Ameríkuhrepp og tæma tvíburaturnana þann 11. september 2001.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Konan með 200 kílóa andlitið.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… Á staðinn þar sem Malaysia Airlines lenti, ég er afar forvitin að vita um afdrif farþeganna.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Kodda, tannbursta og hníf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir