Ár liðið frá opnun 1238

Í gær, 15. júní var eitt ár frá því að Sýndarveruleikasafnið 1238 á Sauðárkróki opnaði. Viðtökur hafa vægast sagt verið frábærar á fyrsta árinu sem hefur verið viðburðarríkt. Ýmsir viðburðir hafa verið í sal Gránu Bistro, s.s. tónleikar, fræðslukvöld og prjónakaffi svo eitthvað sé nefnt. Heimamenn hafa einnig verið duglegir að koma og gæða sér á þeim veitingum sem í boði eru.

Að sögn Áskels Heiðars Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra 1238, hefur aðsókn verið mjög að glæðast. Íslendingarnir séu komnir af stað að skoða landið sitt og aðsókn hafi verið ágæt, sérstaklega um helgar. „Aðsókn í veitingarnar hjá okkur hefur verið frábær, þar erum við komin með nýjan matseðil og fullt af spennandi nýjum réttum úr skagfirsku héraði,“ segir Áskell.

Í tilefni afmælisins verður 20% afsláttur af öllum aðgöngumiðum til 1. Júlí. Frábært tækifæri til að sjá Örlygsstaðabardaga og aðra atburði Sturlungaaldar lifna við í sýndarveruleika. Einnig er hægt að lesa sér til um þetta merkilega tímabil í Íslandssögunni og staldra við á Gránu Bistro eftir skoðunarferðina og gæða sér á veitingum af nýjum matseðli sem var kynntur um helgina með fjölbreyttum kræsingum úr héraði.

Sýningin er opin alla daga í sumar frá 10 - 17 og veitingastaðurinn er opinn fram á kvöld. Tilvalið fyrir heimamenn að kíkja með gesti sína á fræðandi sýningu og gæða sér á girnilegum veitingum.  /SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir