„Bækur eru þolinmóðastir hluta“ | Hallgrímur Helgason svarar Bók-haldi

Hallgrímur Helgason með krosslagðar hendur. MYND: GUNNAR FREYR
Hallgrímur Helgason með krosslagðar hendur. MYND: GUNNAR FREYR

Það er myndlistarmaðurinn og rithöfundurinn Hallgrímur Helgason sem fer yfir bók-haldið sitt í Feyki að þessu sinni. Hallgrímur er einn ástsælasti höfundar þjóðarinnar, margverðlaunaður og liggur sjaldnast á skoðunum sínum. Hann er fæddur árið 1959, býr í 104 Reykjavík, er í sambúð og faðir fjögurra barna og afi tveggja barnabarna.

Hallgrímur hefur sent frá sér 15 skáldsögur og sló í gegn með bókinni Þetta er allt að koma sem var gefin út fyrir rúmum 30 árum. Síðustu bækur hans, 60 kg bækurnar sem gerast á Segulfirði eru stórkostlegar. Ein bóka hans, Rokland, geristi að miklu leyti á Sauðárkróki og segir af Bödda Steingríms, kennara við fjölbraut hvers draumar hafa ekki gengið eftir og missir hann tökin á lífi sínu – eða allir í kringum hann. Böddi Steingríms svaraði Rabb-a-babbi númer 25 í Feyki.

Framundan hjá Hallgrími er málverkasýning í Gallery Port sem opnar 6. september og kvæðasafnið Drungabrim í dauðum sjó kemur út í október. „Safn háttbundinna ljóða sem ég hef ort á þessari öld. Nokkur hef ég birt áður en megnið er óbirt. Með þessu fylgja svo myndverk sem ég gerði sérstaklega fyrir útgáfuna og lyfta vonandi bókinni eitthvað.“

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvaða bók ertu með á náttborðinu? „Er að hlusta á Thor Vilhjálmsson lesa skáldsögu sína Morgunþula í stráum. Tók hana fram í tilefni 100 ára afmælis höfundarins þann 12. ágúst síðstliðinn. Þetta er köflótt bók en stórfengleg stundum. Gaman að heyra hann í svona miklu stuði kominn á áttræðisaldur, lesturinn frábær, og maður fyrirgefur feilsporin. Á náttborðinu liggur Árna saga biskups, ævisaga Árna Þorlákssonar, sem var Skálholtsbiskup á þrettándu öld og Hermann Pálsson segir að hafi skrifað Njálu. Veit ekki með það en mjög hnýsilegur lestur.“

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina? „Ódysseifskviða Hómers, Vesalingarnir eftir Hugo, Njála, fyrsta bindi Íslandsklukkunnar og Dalalíf eftir ykkar konu frá Lundi.“

Hvers konar bækur lestu helst? „Skáldsögur kolleganna, til að reyna að fylgjast með, en líka klassíkina og um klassíkina. Auk þess ævisögur og fræðibækur um fortíðina. Allt sem auðgar andann og dýpkar þekkinguna. Ekki mikið í afþreyingarlestri.“

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn? „Ég las engar bækur sem barn, aðeins dagblöðin og helst íþróttasíðurnar, sem ég kunni utan að. Ungur vann ég allar spurningakeppnir um enska boltann. Vissi hvað allir leikmenn, þjálfarar og heimavellir hétu og hvernig varabúningurinn var hjá Shrewsbury Town.“

Hvaða bók er ómissandi eða er einhver ein bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig? „Vorið 1973 fékk ég í fermingargjöf frá afa og ömmu Schram lítið rautt kver með vandaðri plasthlíf; Andvökur Stephans G. Ég þekkti nafnið frá bernskuárunum þegar ég var í sveit á Brekku í Seyluhreppi, stutt frá æskuslóðum skáldsins og minnisvarðanum á Arnarstapa. Af og til hafði ég handfjatlað þennan grip og alltaf fylgdi bókin mér, í öllum flutningum. Það var hinsvegar ekki fyrr en haustið 2022, þegar ég hóf heimildavinnu fyrir þriðja bindið af Sextíu kílóa sögunni, sem ég sökkti mér ofan í kvæðin, og hafði þau með mér á ferð um Norður Dakóta og Kanada. Þar uppgötvaði ég loks í alvöru þessa stærstu afurð Skagafjarðar, fyrr og síðar, og mesta skáld Íslandssögunnar. Bækur eru þolinmóðastir hluta, geta beðið áratugum saman í hillunni eftir sinni heilögu stund.“

Hvaða rithöfundar eða skáld fá hjartað til að slá örar? „Ég er náttúrlega mest svag fyrir orðkyngi og stíl og þar er Steinunn Sigurðardóttir drottningin. Bergsveinn Birgisson er líka mikill andans höfðingi og maður bíður rólegur eftir öllu frá honum, Ófeigur Sigurðsson og Guðni Elísson eru líka snjallir, en ætli ég sé ekki spenntastur þessa dagana fyrir skáldverkum frá ungu stjörnunum okkar, Fríðu Ísberg og Maríu Elísabetu Bragadóttur. Veit ekki hvort þær verða með í ár en hinsvegar var ég að lesa í handriti nýja bók eftir Sif Sigmarsdóttur sem kemur út í haust og hélt mér hugföngnum í tvo daga í sumar, frábær lesning.“

Áttu þér uppáhalds bókabúð? „Galignani í París. Þetta var lengi enski brunnurinn minn í París og svo er staðsetningin svo ómótstæðileg, við Rue de Rivoli, beint á móti Þingvöllum okkar listamanna: Louvre.“

Hversu margar bækur heldurðu að þú eignist árlega og lestu þær allar? „Myndi giska á 30-35. Ég hef reynt að halda aftur af mér í seinni tíð vegna plássleysis og er í auknum mæli farinn að hlusta á bækur. Ætli ég lesi ekki svona 10-12 af þeim sem ég eignast árlega. En stundum kviknar áhugi á þeim ári eða árum síðar, eins og dæmið með Andvökur sýnir.“

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni? „Borgarbókasafni í Grófinni og Borgarbókasafni í Sólheimum. Á því síðarnefnda er góður eftirfrístundar-andi, gott að koma með barnið sitt og slaka á.“

Hvaða bók heldurðu að þú hafir lesið oftast eða er einhver bók sem þér finnst þú ættir að lesa árlega? „Ég hitti eitt sinn bónda á Ströndum sem sagðist lesa Njálu árlega og hafði þá lesið hana 44 sinnum. Ég hef nú lesið hana fjórum sinnum og hef alveg hugleitt að taka upp árlegan lestur á henni. Ótrúlegt listaverk þessi bók.“

Voru einhverjar teiknimyndasögur sem þú gleyptir í þig? „Nei, það er svo skrýtið að þótt ég sé bæði í myndlist og ritlist þá höfðuðu þær aldrei til mín, mér fannst svo leiðinlegt að lesa talblöðrurnar. Það var helst að ég gægðist í Tinna-bækurnar en þær voru alveg vita kvenmannslausar og þarafleiðandi ekki nógu spennandi.“

Hvaða bækur lestu fyrir börnin þín? „Ég virðist alltaf vera með börn á svæfingaraldri og við lesum enn á hverju kvöldi fyrir þá yngstu. Það er auðvitað ærið misjafnt hvað hún velur, verstar eru Disney bækurnar, en í seinni tíð hefur smekkurinn einfaldast: Hún vill bara bækur eftir bróður minn, Gunnar Helgason! Skemmtilegast er auðvitað þegar við fáum nýja óútgefna bók eftir hann til að lesa og kommentera á. Nú síðustu vikuna hefur það verið Birtingur og símabannið, nýja bókin hans Gunna sem kemur út síðar í haust. Aldeilis frábær bók sem hittir samtímann beint í mark.“

Hvaða sögupersóna úr bókmenntunum hefðir þú viljað vera og hvað hefðir þú gert öðruvísi en þessi persóna? „Gunnar á Hlíðarenda, og fá að hrista mann af spjótinu sínu út í Rangá. Ég hefði reynt að ofmetnast ekki í lokasennunni og leyfa óvinahópum að yfirgefa svæðið í stað þess að teygja mig út á þekjuna eftir örinni þeirra og skjóta henni á eftir þeim, þeim til háðungar. Við það töldu þeir hann orðinn örvalausan og sneru aftur.“

Hefur þú heimsótt staði sérstaklega vegna þess að þeir tengjast bókum sem þú hefur lesið? „Já, eitt sinn lásum við hjónin saman stórkostlega bók Steve Sem-Sandbergs, hins sænska, Öreigarnir í Lodz. Í bílnum hlýddum við allt sumarið á Kristján Franklín lesa og gerðum svo lykkju á Póllandsferð okkar til að koma við í samnefndri borg, alveg ógleymanlegt. Í Fljótunum leitaði ég Lundar og úti á Skaga fann ég Ytra-Malland, þar sem Guðrún bjó lengi. Í Bolungarvík hugsar maður um Himnaríki og helvíti Kalmans, í Önundarfirði sér maður ekki fjöllin fyrir Heimsljósi og með lummunum í Sænautaseli fylgir auðvitað alltaf Bjartur. Um daginn kom ég loks aftur á Bergþórshvol og fann líka Ossabæ þar sem Höskuldur Hvítanesgoði var veginn með sextán stungum jafn margra manna.“

Hver er eftirminnilegasta bókin sem þú hefur fengið að gjöf? „Myndabók um Bandaríkin sem Páll Sigurðsson, faðir Sigrúnar Pálsdóttur rithöfundar, gaf mér 1962 fyrir að vita hvað þáverandi forseti Bandaríkjanna hét.“

Höfundarverkið þitt er orðið nokkuð þungt í kílóum talið, hvaða bók var skemmtilegast að skrifa og hvers vegna? „Herra Alheim frá 2003. Ég skrifaði hana í svaka stuði, á einu ítölsku sumri, á Elbu og í Róm. Það var svo mikið tripp og mikil skemmtun, allt var mögulegt þegar maður var kominn út fyrir þyngdarsvið jarðar!“

Hvað er best með bóklestri? „Með hljóðbók er best að ganga með hundinn, með lesbók er símaleysi best.“

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu? „Það er einfalt: Nýjasta bókin í áskriftarklúbbnum hjá Angústúru.“

Hvað er bók? „Heimur sem þú eignast og bætir við þinn.“

Fleiri fréttir