Frábær jólanámskeið í Farskólanum
Fyrsta jólanámskeið Farskólans fyrir fatlað fólk var haldið í síðustu viku. Það var vel sótt og nutu kennarar og nemendur stundarinnar. Á þessu fyrsta jólanámskeiði lærðu nemendur að búa til fallega kertastjaka úr krukkum og ýmsu skrauti. Við leyfum myndunum að tala sínu máli. Þetta kemur fram í frétt frá Farskólanum.
„Farskólinn heldur ýmis námskeið fyrir fatlað fólk en þetta haustið eru jólanámskeið eru mjög vel sótt. Við bjóðum uppá 6 námskeið tengd jólunum, það er hin svokallaða jólaferna þar sem fólk getur skráð sig á eitt eða öll en það samanstendur af jólakrukkum, sem var haldið í síðustu viku, smákökubakstri sem haldið verður á morgun, kransagerð og að endingu útskurði og steikingu á laufabrauði. Auk fernunnar bjóðum við uppá upplestur á jólasögu á bókasafninu og jólatónlistarupplifun með Sigurlaugu Vordísi,“ segir Embla Dóra þjónustustjóri hjá Farskólanum.
Næsta námskeið er smákökubakstur og verður það kennt í dag þann 25. nóvember. Þá eru eftir í fernunni jólakransar og að endingu útskurður og steiking á laufabrauði. Farskólinn bendir á að enn er hægt að skrá sig á þau námskeið haustannar sem eftir eru. Það er hægt að kynna sér námsframboð og skrá sig með því að fara inná slóðina hér Öll námskeið – Farskólinn
