Fjölgaði um 60 manns á Norðurlandi vestra á fimm mánaða tímabili

Sauðárkrókur. Mynd:PF
Sauðárkrókur. Mynd:PF

Íbúum Norðurlands vestra hefur fjölgað um 60 frá 1. desember sl. og eru nú orðnir alls 7387 talsins sem gerir fjölgun upp á 0,8%. Fjölgun varð í öllum sveitarfélögunum á svæðinu utan eins, samkvæmt samantekt Þjóðskrár Íslands.

Mest fjölgaði í Sveitarfélaginu Skagafirði eða um 36 þar sem 4073 búa í dag, um tólf í Húnaþingi vestra þar sem 1222 búa og á Blönduósi fjölgaði um sjö manns en þar búa nú 949. Alls eiga 370 manns lögheimili í Húnavatnshreppi þar sem fjölgaði um þrjá á þessu tæpa hálfu ári, í Akrahreppi fjölgaði um tvo en þar eru skráðir 207 íbúar og á Skagaströnd bættist einn við íbúatöluna og teljast Skagstrendingar vera 474 talsins nú. Skagabyggð er eina sveitarfélagið þar sem íbúum fækkaði og eru nú skráðir einum manni færri en 1. desember samkvæmt tölum Þjóðskrár eða alls 89 manns.

Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 959 á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 1. maí sl. Það sveitarfélag sem kemur næst var Garðabær en þar fjölgaði íbúum um 208 á sama tímabili. 

Hlutfallslega mest fjölgun í Mýrdalshrepp
Á þjóðskrá.is segir að þegar horft sé til alls landsins þá hefur íbúum Mýrdalshrepp fjölgað hlutfallslega mest síðastliðna fimm mánuði eða um 8,2% en íbúum þar fjölgaði þó aðeins um 59 íbúa. Íbúum fækkaði hlutfallslega mest í Svalbarðsstrandarhreppi eða um 5,0%.  Þá fækkaði íbúum í 23 sveitarfélagi af 72 á ofangreindu tímabili.

Fækkun í tveimur landshlutum
Lítilsháttar fækkun varð í tveimur landshlutum, Vestfjörðum og á Norðurlandi eystra. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 1.460 og á Suðurlandi um 340 en íbúum á Vestfjörðum fækkaði um 20 íbúa og íbúum á Norðurlandi eystra fækkaði um 39.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir