Hægelduð kiðlingaöxl og kjúklingasalat

Matgæðingurinn Þórhildur M. Jónsdóttir
Matgæðingurinn Þórhildur M. Jónsdóttir

Það er Þórhildur M. Jónsdóttir, matreiðslumeistari sem leyfði lesendum að kíkja í pottana hjá sér í 36. tbl. Feykis árið 2017. Þórhildur er Skagfirðingur, úr Lýtingsstaðahreppnum en starfar nú sem umsjónarmaður Vörusmiðju hjá BioPol á Skagaströnd. „ Ég hef mjög gaman af því að lesa matreiðslubækur og kaupi iðulega matreiðslubækur á mínum ferðalögum erlendis sem minjagripi. Hef gaman að því að borða góðan mat og helst ef einhver annar eldar hann fyrir mig. Bestu stundirnar eru þegar maður er með fjölskyldu og vinum að borða góðan mat og tengir maður iðulega minningar við ákveðin mat. 

Það er alltaf spennandi að prufa rétti úr hráefni sem er ekki algengt og ég var svo heppin að fá kiðlingakjöt frá Sigrúnu á Stórhóli um daginn. Ég ákvað að hægelda það og er það alger snilld og mjög einfalt,” segir Þórhildur.

RÉTTUR 1
Hægelduð kiðlingaöxl

Hægelduð kiðlingaöxl. Aðsend mynd.

1 kiðlingaöxl 
1 laukur
4 gulrætur, miðlungsstórar
2-3 hvítlauksrif
2 greinar ferskt rósmarin
1 tsk. svartur pipar 
1 tsk. salt
2 msk. tómatpurra  
250 ml rauðvín
350 ml vatn

Aðferð:
Kiðlingaöxlin er krydduð með salti og pipar og er sett í letipott ásamt grófskornu grænmetinu, tómatpurru, rauðvíni og vatni. Pottinum lokað og hann settur inn í ofn á 120°C í 3-4 tíma eftir stærð bitans. Gott er að ausa soðinu yfir annað slagið á meðan er verið að elda. 

”Hér kemur önnur uppskrift sem tengist góðum minningum með vinkonum mínum en við fáum okkur iðulega þetta salat þegar við eyðum helgum saman.”

RÉTTUR 2
Kjúklingasalat fyrir 6

1 meðalstór kjúklingur eða 4 bringur 
2 pokar ruccola (klettasalat)
500 g heilhveitispaghettí
150 g furuhnetur
1 Mexíkóostur
1 sítróna
2-3 rif af hvítlauk
250 g litlir tómatar
2 msk.  steinselja, fersk
olífuolía
svartur pipar og salt

Aðferð:
Steikið kjúklinginn, kælið og skerið í bita. Spaghetti soðið og kælt. Olífuolía, hvítlaukur, steinselja, sítrónubörkur, salt og pipar sett saman í mixer og blandað eða allt saxað mjög smátt og sett út í olíuna. Tómatarnir skornir í tvennt  og Mexíkóosturinn í teninga.
Blandið saman spaghettí og kjúklingi, hellið olíunni út á og blandið vel. Í lokin eru tómarar ostur og klettasalat sett út í. 

Verði ykkur að góðu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir