Mælifellskirkja hundrað ára / Ólafur Hallgrímsson skrifar

Mælifellskirkja. Mynd: ÓAB
Mælifellskirkja. Mynd: ÓAB

Mælifellskirkja í Skagafirði fagnaði hundrað ára afmæli á þessu vori. Mælifell er forn kirkjustaður og prestssetur þar sem kirkja hefur líklega staðið frá árdögum kristni í landinu, helguð heilögum Nikulási. Mælifellsprestar þjónuðu annexíunni Reykjum frá siðaskiptum og frá árinu 1907 einnig Goðdölum og Ábæ í Austurdal.

Torfkirkjur nokkrar hafa staðið á Mælifelli. Stóðu þær austarlega í gamla garðinum og snéru dyrum í vestur, umkringdar hringlaga torfgarði.

Árið 1887 varð prestur á Mælifelli sr. Jón Ólafur Magnússon. Hann lét rífa torfkirkjuna sem var þá orðin hrörleg og reisa nýja timburkirkju á hólnum gagnvart bæjarhúsum. Kirkjan var vígð árið 1893, reisulegt hús og trúlega fyrsta kirkja sem reist var utan garðs á Mælifelli. Kirkja þessi brann til kaldra kola ásamt bæjarhúsum 21. sept. 1921. Kom eldurinn upp á bænum og náði fljótt til kirkjunnar, enda aðeins mjótt sund á milli. Presturinn sr. Tryggvi H. Kvaran var heima ásamt fjölskyldu sinni en vinnumenn flestir í göngum. Fáu varð bjargað utan altarisklæðis sem sjá má slitrur af í kirkjunni. Það var Ólafur Sveinsson meðhjálpari á Starrastöðum sem vann það afrek að bjarga klæðinu úr brennandi kirkjunni.

Efnt var til nýrrar kirkjubyggingar strax hið næsta sumar og sömuleiðis íbúðarhúss sem stendur enn að stofni til. Var kirkjubyggingunni lokið 1924 og henni valinn staður vestan gamla garðsins með dyrum til austurs en garður stækkaður sem því nam.

Kirkjan var vígð 7. júní 1925 af sr. Hálfdáni Guðjónssyni, prófasti á Sauðárkróki. Mælifellskirkja er steinssteypt hús, fremur lítil og tekur um 60 manns í sæti enda minnkuð frá upphaflegri teikningu. Kirkjuna teiknaði Guðjón Samúelsson en yfirsmiður var Ólafur Kristjánsson frá Ábæ. Hún er hefðbundin að sniði, forkirkja með turni, kirkjuskip og kór með viðbyggðu litlu skrúðhúsi. Gluggar eru átta þar af fjórir á kirkjuskipi með lituðum glerrúðum. Kirkjan var klædd að utan með álklæðningu árið 1882.

Af munum kirkjunnar (orna- og instrumenta) ber helst að geta hinnar stóru altaristöflu sem máluð er af Magnúsi Jónssyni, guðfræðiprófessor og færð kirkjunni að gjöf 1951. Taflan sýnir Fjallræðuna og er fágætt listaverk. Magnús málaði einnig mynd í dyraboga er sýnir ummyndunina á fjallinu. Magnús ólst upp sem barn á Mælifelli, sonur sr. Jóns Ólafs Magnússonar.

Á prédikunarstól, sem er jafn gamall kirkjunni, eru myndir af guðspjallamönnunum fjórum og Páli postula, málaðar af Hauki Stefánssyni, listmálara á Akureyri sem einnig málaði munstur innan í kórboga. Á hliðarveggjum getur að líta innrömmuð slitur af altarisklæðinu er bjargaðist úr brunanum 1921. Klæðið saumaði Elínborg Pétursdóttir frá Víðivöllum, prestsfrú á Mælifelli, og er ártalið 1857 á klæðinu ásamt versi, allt listilega gjört.

Á altarinu eru m.a. stjakar tveir stórir, úr messing, gullhúðaðir, gefnir af Jóhannesi Snorrasyni flugstjóra árið 1981. Dúkur framan á altarisbrún er heklaður og gefinn af Hjördísi Tryggvadóttur Kvaran. Í mynstrinu skiptast á kross, kaleikur og stafirnir IHS (Jesus Hominum Salvator).

Orgel kirkjunnar er smíðað í Hamborg 1976 og tekið í notkun það sama ár. Söngtafla gerð af Jóhanni Guðmundssyni í Stapa. Ljós í kirkjunni eru gefin árið 2001 af Guðrúnu Kristjánsdóttur frá Starrastöðum. Ljósakross yfir kirkjudyrum var gefinn 1986 í minningu hjónanna Sólveigar Eggertsdóttur og Jóns Péturssonar.

Fátt er mjög gamalla kirkjugripa, þó er yfir dyrum í forkirkju gömul fjöl með áletruninni: „Vakta þinn fót nær þú gengur til guðs húss”. ( Pred.4:7 ). Uppruni óviss.

Mælifellskirkja er nú á hundrað ára afmælinu hið fegursta guðshús, vel búin myndverki og hingað leggja margir leið sína að skoða kirkju og garð. Hún er frá árinu 2010 hituð upp með vatni frá hitaveitu Skagafjarðar.

Kirkjan er ein fjögurra kirkna í Mælifellsprestakalli sem lagt var niður árið 2008 og sameinað Miklabæjarprestakalli en tilheyrir nú frá 1. jan. 2023 hinu sameinaða Skagafjarðarprestakalli.

Framkvæmdir við nýja kirkjugarðsgirðingu voru orðnar aðkallandi og eru þær hafnar en hefur seinkað af ýmsum ástæðum. Er sýnt að þeim verður ekki lokið á afmælisárinu en hér er um stóra framkvæmd að ræða fyrir lítinn söfnuð. Sóknarnefndarformaður er Helga Rós Indriðadóttir.

Ólafur Hallgrímsson.

Fleiri fréttir