Nýr blaðamaður Feykis

Sumarafleysing Feykis þetta árið verður í höndum Soffíu Helgu Valsdóttur og hefur hún störf í dag. Soffía er gift Þorláki varaslökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Skagafjarðar og eru börnin fjögur.  Fluttu þau á Sauðárkrók fyrir tveimur árum þegar Þorlákur tók við þeirri stöðu. Áður bjuggu þau á Akureyri. Skagfirðingar tóku vel á móti þeim og auðvelt var að kynnast fólki. Hjálpaði íþróttaiðkun barnanna mikið til þar um.

„Er Skagfirðingar spyrja mig hvaðan ég sé veit ég oft ekki hverju skal svara þar sem ég hef verið á frekar miklu flakki í gegnum tíðina. Ég er þó fædd í Reykjavík sem á enn vinninginn í búsetuárum. Annars hef ég einnig búið í Mývatnssveit og Danmörku og mikið dvalið á ættaróðalinu í Súðavík sem er í eigu stórfjölskyldunnar. Landsbyggðin togar alltaf meira í mig heldur en borgin og vil ég kenna gúmmískóárum mínum í Mývatnssveitinni um það. Þar bjó ég með foreldrum mínum og bræðrum í fjögur ár þegar pabbi vann í Kísiliðjunni. Eftir það hef ég alltaf sótt út á land og hafa sumarstörfin litast af því. Ég var tjaldvörður, kom mér í sauðburð á hverju vori og var svo landvörður í mörg sumur í Þjóðgarðinum Jökulsárgljúfrum og Reykjanesfólkvangi,“ segir Soffía.

Hún segir fjölskyldunni líða vel á Sauðárkróki og hefur hún fest kaup á húsi í Víðihlíðinni og nýtt Covid-tímann til að laga það að sér og eru nú nýflutt þar inn.

Soffía mun skrifa fréttir í Feyki og Feyki.is, sinna frétta-og efnisöflun ásamt tilfallandi störfum. Netfang hennar er bladamadur@feykir.is. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir