Samspil í sveitinni

Nú í maí kynnti Tónlistarskóli Skagafjarðar Nótu-atriðið sitt en þá var myndbandi með flutningi nemenda skólans á laginu Elska þig, sem Magnús Eiríksson setti saman og Mannakorn gerðu vinsælt, skellt á netið. Nemendurnir sem flytja lagið koma frá starfsstöðvum skólans á Hofsósi og Varmahlíð.

Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskóla og er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra. Nótan var hugsuð sem ný vídd í starfsemi tónlistarskóla og í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið. Nótan hefur verið haldin árlega síðan 2010 en í þetta skiptið var tónleikunum frestað til haustsins vegna COVID-19.

Starfsemi tónlistarskóla landsins hefur að sjálfsögðu ekki farið varhluta af faraldrinum fordæmalausa. Þar sem því hefur verið við komið hefur fjarkennsla verið tekin upp en samleiksæfingar hafa verið litlar. Tónlistarskóli Skagafjarðar hefur árlega staðið fyrir vortónleikum í eða í kringum Sæluviku en ekkert varð af þeim frekar en hefðbundnum skólaslitum sem áttu að vera þann 15. maí.

Á netsíðu skólans segir í frétt frá 15. maí að tónlistarskólinn hyggist leita á önnur mið og kennarar muni útfæra slit skólans með ýmsum hætti ásamt nemendum sínum, s.s. upptökum eða því sem henti hverju sinni. Auk myndbandsins sem hér má sjá eru nokkur myndbönd til viðbótar nú þegar komin á Facebook-síðu Tónlistarskóla Skagafjarðar.

/ÓAB

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir