Sektir vegna umferðarlagabrota hjá embætti Lögreglunnar á Norðurlandi vestra nemur alls rúmum 322 milljónum króna á fyrstu átta mánuðum ársins

Lögreglan á Norðurlandi vestra stöðvaði sl. mánudag ökumann sem ók bifreið sinni á 170 km/klst. á þjóðvegi 1 í Blönduhlíð í Skagafirði þar sem hámarkshraði er 90. Ökumaður bifreiðarinnar ók á 80 km/klst. umfram leyfilegan hámarkshraða. Á Facebooksíðu Lögreglunnar  segir að ökumaðurinn hafi þurft að greiða 240.000 kr. sekt á vettvangi sem og að honum var gert að hætta akstri bifreiðarinnar og þurfti farþegi að taka við. Um erlendan ferðamann var að ræða.

Lögreglan á Norðurlandi vestra hefur verið með mjög öflugt umferðareftirlit það sem af er ári og þann 1. september voru kærur vegna umferðarlagabrota 5399 talsins. Af þeim voru 5077 vegna  hraðaksturs. Segir í færslu Lögreglunnar að um sambærilegar tölur sé að ræða og fyrir árið 2018, en það ár fækkaði umferðaróhöppum í umdæminu um 26% frá árinu á undan. Slysatölur fyrir árið 2019 eru sömuleiðis sambærilegar við árið á undan.

Fram kemur að álagðar sektir vegna umferðarlagabrota á fyrstu átta mánuðum ársins hjá embættinu nemi alls rúmum 322 milljónum króna en rekstrarframlag ríkisins til embættisins á sama tímabili er u.þ.b. 245 milljónir króna. „Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra er því að skila 77 milljónum í ríkissjóð á umræddu tímabili, sem er vel, að ógleymdum þeim sparnaði sem fækkun umferðaslysa hefur í för með sér sem er gríðarlegur og er í raun vart hægt að meta til fjár. Sýnileg löggæsla á þjóðvegum landsins er öflug forvörn og samkvæmt tölunum hér að ofan er ljóst að sýnileg löggæsla á vegum á Norðurlandi vestra er að hafa tilætluð áhrif,“ segir á FB síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir