Sirrý Sif ráðin á fjölskyldusvið Skagafjarðar

Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, félagsráðgjafi MA, hefur verið ráðin til starfa hjá fjölskyldusviði Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 1. ágúst sl. Sirrý Sif starfaði áður sem fræðslu- og verkefnastjóri Alzheimersamtakanna á Íslandi og mun sinna verkefnum er varða faglega og rekstrarlega stjórnun heimaþjónustu, húsnæðismál, félagslegri ráðgjöf, fjárhagsaðstoð og daggæslu barna á einkaheimilum. Tekur hún við af Gunnari Sandholt sem látið hefur af störfum.

Sirrý Sif er fædd og uppalin í Skagafirði og segist alltaf hafa verið á leiðinni heim aftur, en til glöggvunar þeim sem ekki þekkja er hún frá Flugumýri.

„Við tókum ákvörðun um að flytja í janúar 2019 og auglýsingin um starfið datt inn á besta mögulega tíma. Ég er með starfsréttindi sem félagsráðgjafi og er að sérhæfa mig í öldrunarfræðum, það lá því beint við að sækja um,“ segir Sirrý Sif sem hefur miklar væntingar til starfsins og hlakkar verulega til að takast á við þau verkefni sem hennar bíða. „Um þessar mundir er sérstaklega mikið kallað eftir bættri öldrunarþjónustu og aukinni fagmennsku. Sveitarfélagið Skagafjörður getur þar verið leiðandi í þróun þjónustu sem hefur það að markmiði að viðhalda sjálfsbjargargetu hvers og eins. Þannig má lengja tímann sem fólk fær á eigin heimilum og seinka flutningi á heilbrigðisstofnanir. Sá áfangi að vera orðið heilsueflandi sveitarfélag mun til að mynda ekki síður hafa áhrif á eldra fólk en aðra. Hreyfing og útivera er t.d. kjörið verkefni fyrir kynslóðasamskipti. Allir ættu að hafa tíma fyrir einn göngutúr með ömmu eða afa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir