Skagfirðingur tekur við karlaliði KR í körfunni

Darri Freyr Atlason í miklum Valskvennafans.  Mynd: Eva Björk - af Facebooksíðu Darra.
Darri Freyr Atlason í miklum Valskvennafans. Mynd: Eva Björk - af Facebooksíðu Darra.

Skagfirðingurinn Darri Freyr Atlason hefur verið ráðinn þjálfari Íslandsmeistara karla í körfubolta og tekur við af hinum sigursæla þjálfara Inga Þór Steinþórssyni sem sagt var upp á dögunum. Sá átti tvö ár eftir af samningi sínum við Vesturbæjarliðið.

„Ég tek við KR-liðinu af auðmýkt. Það var magnað að ganga inn í salinn í fyrsta skipti sem þjálfari KR eftir að hafa sett blek á blað. Ábyggilega verður það enn þá magnaðra þegar hægt verður að spila körfubolta. Í liðinu eru leikmenn sem ég ber mikla virðingu fyrir. Leikmenn sem ég ólst upp með og leikmenn sem ég fylgdist með sem áhorfandi. Sumir þeirra voru stjörnur þegar ég var að alast upp. Að fá tækifæri til að vinna með þeim að því að vinna áttunda titilinn í röð verður frábært,“ sagði Darri í viðtali á Mbl.is í gær en KR vann sex ár í röð 2014 - 2019 en ekkert lið varð Íslandsmeistari 2020.

Þar segir að Darri þekki vel til hjá KR en hann var sjálfur leikmaður í gegnum yngri flokka og upp í meistaraflokk, þjálfaði yngri flokka og meistaraflokk kvenna um tíma áður en hann fór yfir til Vals þar sem hann hjálpaði kvennaliðinu að krækja í alla titla sem í boði voru á tímabilinu 2018-2019.

Skagfirðingurinn snjalli er sonur Jennýjar I. Leifsdóttur og Atla Freys Sveinssonar sem bæði eru brottfluttir Króksarar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir