Tap gegn Ármanni eftir hörkuleik

Lið Ármanns og Tindastóls mættust í hörkuleik í 1. deild kvenna í körfubolta en lið heimastúlkna var aðeins hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í efstu deild í vor, vann deildina en tapaði fyrir ÍR í fimm leikja seríu um sætið í Subway-deild kvenna. Það mátti því búast við erfiðum leik í gær en leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik en í þeim síðari náði Ármann undirtökunum. Stólastúlkur gáfu þó ekkert eftir, komust yfir þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka, en endaspretturinn var Ármanns. Lokatölur 78-66.

Lið Tindastóls byrjaði leikinn vel en líkt og í leiknum á Akureyri í miðri viku þá mætti lið Tindastóls til leiks með aðeins átta leikmenn, sökum meiðsla og veikinda. Stólastúlkur náðu sjö stiga forystu í lok fyrsta leikhluta, 15-22, og það leit lengstum út fyrir að gestirnir héldu forystunni út fyrri hálfleikinn. Staðan 35-40 þegar mínúta var til hlés en þá skellti Schekinah Bimpa í tvo þrista í röð og Ármann leiddi í hálfleik, 41-40.

Hún bætti við íleggju í upphafi síðari hálfleik og Jónína Þordís Karlsdóttir skellti í þrist og heimastúlkur komnar sex stigum yfir eftir 12-0 kafla. Þær voru síðan með 4-8 stiga forskot næstu mínúturnar en tveir þristar frá Chloe og íleggja frá Emese sáu til þess að þremur stigum munaði fyrir lokafjórðunginn, staðan 60-57. Bimpa hélt áfram að bæta í stigasafnið í upphafi fjórða leikhluta en þristur frá Ingu Sólveigu kom Stólastúlkum aftur á bragðið. Þrjár körfur frá Chloe breyttu stöðunni úr 64-60 í 64-66 þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Þá skellti lið Ármanns í lás í vörninni og náðu hrikalegum 14-0 kafla – lið Tindastóls skoraði semsagt ekki eina körfu í rúmar fimm mínútur.

Í samtali við Evu Rún, fyrirliða, í vikunni þá tjáði hún Feyki að það væri mikill munur að mæta með átta eða tólf leikmenn í leik, þá skorti talsvert upp á orku og liðsanda. Það er ljóst að þær Eva, Chloe og Emese munu spila megnið af leikjum liðsins í vetur en þær skiluðu allar 40 mínútum í gær. Það eru því væntanlega þreyttir fætur sem þurfa að tækla lokamínúturnar þegar slíkt gerist.

Chloe Wanink var með 27 stig í gær en slaka 3ja stiga nýtingu. Emese Vida gerði 12 stig en var með 24 fráköst og endaði með 41 framlagspunkt. Inga Sóveig setti niður þrjá þétta þrista og gerði 11 stig og Eva var með níu stig. Fleiri stúlkur skoruðu ekki fyrir Tindastól. Í liði Ármanns voru Bimpa og Jónína langöflugastar, bæði stigaskori og fráköstum. Bimpa gerði 30 stig og tók 11 fráköst en Jónína 28 stig og tók 14 fráköst.

Næsti leikur Tindastóls er hér heima gegn liði Snæfells næstkomandi laugardag. Snæfell er með tvö stig að loknum tveimur leikjum. Tapaði naumlega gegn KR í fyrstu umferð en malaði síðan Breiðablik b líkt og Stólastúlkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir