Þrautaganga Stólanna heldur áfram

Lið Tindastóls mætti hálf lemstrað til leiks á Húsavík í gær þar sem þeir léku við heimamenn í Völsungi. Átta leikmenn vantaði í hópinn og því aðeins þrettán leikmenn á skýrslu. Þrátt fyrir þetta voru Stólarnir inni í leiknum þar til á 80. mínútu þegar Húsvíkingar komust í 3-1. Lokatölur voru 4-1 og þrautaganga Tindastóls heldur því áfram í 2. deildinni.

Fjórir leikmenn voru meiddir, þeir Konni, Jóhann Daði, Alli og Kyen og til að bæta gráu ofan á svart þá meiddist Bjarki í upphitun og þurfti því Arnar Skúli þjálfari að skella sjálfum sér inn á og spilaði framarlega á miðjunni í fyrsta skipti í meistaraflokki. Auk þeirra sem voru meiddir var Hólmar í banni og Fannar og Jón Grétar fjarri góðu gamni.

Upphafsmínúturnar voru fjörugar. Heimamenn tóku forystuna á 7. mínútu með marki Aðalsteins Friðrikssonar en Benni var snöggur að kvitta fyrir Stólana og staðan 1-1 eftir 10 mínútur. Það var hinsvegar verra að það tók Völsunga aðeins mínútu að komast yfir á ný en þar var á ferðinni Rúnar Brynjarsson. Staðan var 2-1 í hálfleik og það var ekki fyrr en á 81. mínútu sem Rafnar Smárason bætti við þriðja marki Völsungs og þremur mínútum síðar innsiglaði Akil Rondel Dexter De Freitas sigurinn.

Þrátt fyrir dapurlegar lokatölur þá voru Stólarnir vel inni í leiknum að sögn Arnars Skúla Atlasonar, annars þjálfara Tindastóls. Þannig hafi lið Tindastóls fengið fjögur dauðafæri á meðan það var 2-1 undir, þar á meðal skot í slá og stöng og dauðafæri einn á móti einum. En það vill oft vera þannig að botnliðunum eru allir bjargir bannaðar, sjálfstraustið ekki til staðar og heppnin ekki með. „Meðan við nýtum ekki færin okkar, þá er rosalega erfitt að vinna fótboltaleik,“  sagði Arnar Skúli í spjalli við Feyki.

Síðasti heimaleikur Tindastóls í 2. deildinni að sinni verður nk. laugardag en þá kemur lið Kára frá Akranesi í heimsókn. Lið Kára hefur halað inn nokkur stig að undanförnu og hefur bjargað sér frá falli í 3. deild. Það er þó vonandi að leikmenn Tindastóls nái að berja sig saman og sýni stuðningsmönnum sínum góðan leik. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir