230 í sóttkví í Húnaþingi vestra

Frá Hvammstanga. Mynd:FE
Frá Hvammstanga. Mynd:FE

Eins og greint var frá í gær greindist smit af völdum COVID-19 veirunnar á Hvammstanga í fyrrakvöld og var það jafnframt fyrsta smitið sem greinst hefur á Norðurlandi vestra. Í framhaldi af því var tekin sú ákvörðun, í samráði við fulltrúa almannavarna og sóttvarnalækni, að allir nemendur og starfsmenn Grunnskóla Húnaþings vestra færu í sóttkví til og með 30. mars 2020.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir í gærkvöldi í ávarpi til íbúa á vef sveitarfélagsins að þá séu rúmlega 230 einstaklingar komnir í sóttkví, eða um 20% sveitarfélagsins. Skapar þetta mikið álag víða í samfélaginu og er starfsemi skert hjá mörgum stofnunum sveitarfélagsins og lokað fyrir heimsóknir í flestar þeirra.

„Við vonum að íbúar sýni þessu skilning, en starfsfólk sveitarfélagsins er boðið og búið að aðstoða eftir fremsta megni í gegnum síma, tölvupósti og í fjarfundi. Uppfærður listi yfir þá  þjónustu sveitarfélagsins sem hefur þurft að skerða kemur á heimasíðuna á morgun [dag],“ segir í ávarpi sveitarstjóra sem hvetur íbúa til að fara að öllu eftir leiðbeiningum stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda ásamt því að sýna almenna skynsemi. „Á næstu dögum megum við búast við því að fleiri aðilar þurfi að skerða þjónustu og því reynir á samtakamátt okkar, samstöðu og æðruleysi  eins og við höfum svo oft þurft að sýna á undanförnum mánuðum,“ segir Ragnheiður Jóna. 

Sóttkvíin skapar álag hjá fleirum en sveitarfélaginu. Í tilkynningu frá Kaupfélagi Vestur Húnvetninga kemur fram að starfsemi þess fari ekki varhluta af ástandinu og þar hafi verið mikið álag á starfsfólki kjörbúðar við að taka til pantanir. „Viljum við hvetja viðskiptavini okkar til að senda ættingja og vini að versla fyrir sig, ef þess er kostur, til að auka líkur á að við getum sinnt öllum okkar viðskiptavinum með vörur á meðan að núverandi ástand varir. Við munum áfram eftir fremsta megni taka við pöntunum og eftir atvikum senda til þeirra sem ekki eru í aðstöðu til að bjarga sér sjálfir um það,“ segir í tílkynningu frá kaupfélagsstjóra. Þar kemur einnig fram að frá og með deginum í dag verði breyttur opnunartími sem hér segir:


Kjörbúð verður opin alla virka daga frá kl. 10-12 og 14-18 - pantanir í síma 455-2310 og 455-2300 á milli kl. 9 og 10 á morgnana og aftur frá kl. 13-14 eftir hádegið.
Körbúð verður opin á laugardögum frá kl. 12-14. Ekki er tekið á móti pöntunum á laugardögum.
Byggingavörudeild verður opin frá kl. 14-18 alla virka daga og milli kl. 12-14 á laugardögum.
Pakkhús verður opið frá kl. 10-12 og 14-18 alla virka daga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir