Afurðaverð 2020 - Sauðfjárbændur krefjast leiðréttinga á afurðaverði

Árin 2016 og 2017 varð algjört hrun á afurðaverði sauðfjárbænda.  Ástæðurnar voru af ýmsum toga. Einkum verðfall á erlendum mörkuðum og óhagstæð gengisþróun.  Afleiðingin kom m.a. fram í óhóflegri birgðasöfnun hjá sláturleyfishöfum og hruni í afurðaverði til bænda. 

Þróun afurðaverð allt frá árinu 2007. Landssamtök sauðfjárbænda reikna árlega út meðal afurðaverð hvers árs.  Útreikningarnir byggja á landsmeðaltali í vikum 34-45. Vægi einstakra vikna í verðinu byggir á sláturmagni á landinu öllu og sömuleiðis kjötmati á landinu öllu eftir einstökum vikum hvers árs. Vægi afurðastöðva í landsmeðaltali er síðan eftir hlutdeild þeirra í slátrun á tímabilinu í heild. Raunverð sem einstakar afurðastöðvar greiða er síðan breytilegt, enda er niðurstaða kjötmats hjá hverri fyrir sig ekki sú sama og landsmeðaltalið, né heldur sláturmagn í einstökum vikum. Af sömu ástæðum er meðalverð sem einstakir bændur fá líka breytilegt.  Haustið 2016 lækkaði afurðaverð á lambakjöti um 9,1% og öðru kindakjöti um 33,4%.  Árið eftir lækkaði afurðaverðið aftur um 30% og verð á öðru kindakjöti stóð í stað.  Hrun í afkomu á erlendum mörkuðum fyrir kindakjöt og hliðarafurðir þeirra samhliða óhagstæðri gengisþróun var megin ástæðan fyrir þessari þróun. Landssamtök sauðfjárbænda beittu sér fyrir aðgerðum sem myndu leiða greinina sem fyrst út úr þessari stöðu. Einkum var horft til aðgerða sem myndu draga úr framleiðslu og jafnframt taka á vandamálum í birgðasöfnun.  Ríkisstjórnin kom til móts við hluta kjaraskerðingar bænda í upphafi árs 2018 og farið var í sérstök átaksverkefni í útflutningi 2016-2017 og 2017-2018.  Eiginlegar aðgerðir vegna stöðunnar komu ekki til framkvæmda fyrr en endurskoðun sauðfjársamnings lauk í janúar 2019.  Inn í þann samning sóttust sauðfjárbændur eftir verkfærum sem gætu til framtíðar hjálpað til við að takast á við ófyrirséða markaðsbresti.  Fullyrða má að nær öll landbúnaðarkerfi í heiminum eru byggð upp með slíkum hætti.

Krafa um leiðréttingu á afurðaverði
Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda gaf út viðmiðunarverð fyrir dilkakjöt haustið 2020.  Þess er krafist að bændur fái að lágmarki 132 kr/kg hækkun frá reiknuðu meðalverði haustið 2019 að viðbættum þeim viðbótargreiðslum sem greiddar hafa verið.  Það gerir reiknað meðalverð um 600 kr/kg. 

Reiknað meðal afurðaverð fyrir dilkakjöt á árunum 2013-2019 og útgefið viðmiðunarverð Landssamtaka sauðfjárbænda fyrir árin 2020-2021.  Tómi hluti stöplanna sýnir mun á afurðaverði hvers árs og framreiknuðu afurðaverði haustsins 2013 miðað við verðlagsþróun mælda af Hagstofu Íslands. Í tillögu Landssamtaka sauðfjárbænda er gert ráð fyrir að það fari fram leiðrétting á afurðaverði á næstum tveimur árum þannig að haustið 2021 verð hér greitt sambærilegt afurðaverð og var haustið 2013 að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.

Samkvæmt 8. grein búvörulaga (99/1993) er Landssamtökum sauðfjárbænda heimilt að gefa út viðmiðunarverð á sauðfjárafurðum.  Viðmiðunarverðið er hins vegar ekki bindandi fyrir kaupendur afurða.  Verðlagning sauðfjárafurða er frjáls á öllum sölustigum.  

Hefði afurðaverð fylgt almennri þróun verðlags frá árinu 2014 þá ætti afurðaverð nú í haust að vera 690 kr/kg.

Lægsta afurðaverð í Evrópu
Landssamtök sauðfjárbænda hafa tekið saman gögn sem sýna að það afurðaverð sem íslenskir sauðfjárbændur fengu greitt á síðasta ári er það lægsta sem finnst í Evrópu.

Afurðaverð innan aðildarlanda Evrópusambandsins í viku 27 (28.6-4.7).Evrópusambandið gefur vikulega út yfirlit yfir afurðaverð allra aðildarlanda í skýrslu sem nefnist.  Weekly price report on Heacy Lamb and Light Lamb price in the EU.  Um er að ræða afurðaverð til bænda (farm gate price).

Lægsta afurðaverð er greitt til bænda í Rúmeníu sem fá 3,03 Evrur/kg sem er um 485 kr/kg (miðað við gengi Evru sé 160).  Hæsta afurðaverð er greitt til bænda í Frakklandi sem fá 6,55 Evrur/kg sem er um 1.048 kr/kg.  Afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda haustið 2019 með viðbótargreiðslum var 468 kr/kg.

Lambakjöt hefur ekki fylgt almennri verðþróun
Landssamtök sauðfjárbænda hafa tekið saman gögn sem sýna það að verð á lambakjöti til neytenda hefur ekki fylgt almennri verþróun.  Frá árinu 2014 hefur verðlag hækkað um 12,7% á meðan smásöluverð á lambakjöti hefur aðeins hækkað um 2,7%.

Hagstofa Íslands notar vísitölur til þess að fylgist með þróun verðlags. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá þróun á vísitölu neysluverð frá árinu 2016 borið saman við vísitölu lambakjöts, nýtt eða frosið sem er ein af þeim fjölmörgum undirvísitölum sem vísitala neysluverðs byggir á.   Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ kostaði stöðluð matarkarfa í september 2019 að meðaltali 24.360 kr.  Þar af voru 2 kg af lambalæri sem kostaði 2.607 kr eða 1.303 kr/kg.  Þessi sama matarkarfa hefði við upphaf árs 2016 kostað 22.181 kr og lambalærið kostað 1.348 kr/kg miðað við þróun vísitölu og að sama skapi hefði í júlí 2020 matarkarfan kostað 24.999 kr og lambalærið kostað 1.385 kr/kg.  Raunhækkun á lambalærinu er  36 kr/kg en hefði verð á lambalæri fylgt verðlagsþróun þá ætti það að kosta 1.520 kr/kg sem væri hækkun um 171 kr/kg.  Mismunurinn er um 135 kr/kg sem er gott betur en sú krónutölu hækkun sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa lagt fram í viðmiðunarverði haustsins.

Bændur vilja sanngjörn viðskipti
Samkvæmt greiningu Landssamtaka sauðfjárbænda er hluti bænda af smásöluverði aðeins 37%.  Í nágrannalöndum okkur er hlutur sauðfjárbænda að jafnaði 45-50% af smásöluverði.

Verðlíkan LS greinir smásöluverð á heilum skrokk í júlí 2017.  Skrokkhlutföll eru byggð á eftirfarandi heimild: Ólafur Reykdal & Guðjón Þorkelsson, 1994. Efnasamsetning og nýting lambakjöts. Fjölrit Rala nr. 176.  Verðhlutföll milli skrokkhluta eru byggð verðkönnun í smásölu.  Smásöluverð á heilum skrokk er þannig reiknað úr frá þróun á smásöluverði á læri.Landssamtök sauðfjárbænda fylgjast með þróun smásöluverðs með verðlíkani sem samtökin hafa þróað.  Samkvæmt verðlíkani Landssamtaka sauðfjárbænda er smásöluverð á lambakjöti miðað við kaup á heilum skrokk 1.264 kr/kg.  Meðalafurðaverð haustið 2019 með viðbótargreiðslum var 468 kr/kg.  Því er hlutur bóndans af smásöluverði 37%.  Ef hlutur íslenskra sauðfjárbænda af smásöluverði væri t.d. 47% þá væri afurðaverð 607 kr/kg miðað við að meðal smásöluverð á heilum skrokk sé 1.264 kr/kg.

Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir