Allir með Feyki!

Það er forvitnilegur Feykir sem kom út í dag, stútfullur af fróðlegu og skemmtilegu efni. Í aðalefni blaðsins er fjallað um Ernuna, skipsflakið á Borgarsandi við Sauðárkrók, saga þess rifjuð upp og fjöldi mynda fylgir með sem sýnir skipið í mismunandi brúkun og ástandi. Glæst skip sem endaði í ljósum logum.

Jón Ólafur Sigurjónsson er í viðtali en fyrir skömmu stofnaði hann, ásamt Hugrúnu Sif Hallgrímsdóttir konu sinni, einu útfararstofuna á Norðurlandi vestra. Kristján Bjarni Halldórsson skrifar grein um íþróttatengda ferðaþjónustu í Skagafirði og er golfið honum einkar hugleikið. Rúnar Rúnarsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls er í viðtali og segir frá Covid áhrifum og hvernig framhaldið gæti litið út í boltanum. 

Þórey Edda Elísdóttir segir frá því hvernig var að greinast með kórónaveiruna og áfallið sem því fylgdi og Valdimar Guðmannsson svarar spurningum í RABB-A-BABB. Á baksíðu má svo sjá magnaðar myndir Róberts Daníels Jónssonar sem fanga vorstemninguna listavel.

Meðal fastra þátta má nefna áskorandapennann en um hann heldur Ingvar Björnsson á Hólabaki, Vísnaþáttur Guðmundar, sá 758. í röðinni og matarþáttur þar sem Þuríður Þorláksdóttir matreiðir mikið góðgæti með börnunum. Feykifín afþreying er fyrir þá krossgátu- og sudokuþyrstu auk skemmtilegrar vísnagátu, Tilvitnun vikunnar og því sem er ótrúlegt, en kannski satt. Hvaða farfugla ertu búin að sjá í vor er spurning vikunnar.

Feykir þakkar lesendum fyrir samvinnuna í vetur og óskar þeim og öðrum landsmönnum gleðilegs sumars.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir