„Ég er steinhættur að rembast við að gera vísu“

Einar Kolbeins ásamt kátum ferfættum vísnavini. MYND AF FB
Einar Kolbeins ásamt kátum ferfættum vísnavini. MYND AF FB

Í Bólstaðarhlíð býr Einar Kolbeinsson sem sýslar ýmislegt og segist vera alls konar bóndi. Eins og er í tísku um þessar mundir þá er fjölskyldan með ferðaþjónustu, Heimafengið ehf., bjóða gistingu í Bólstaðarhlíð og leigja út þrjú herbergi og tvær litlar íbúðir. „Þetta hefur gengið afar vel en auðvitað er ansi rólegt yfir því þessi dægrin,“ segir Einar. Ástæðan fyrir því að Feykir ákvað að banka upp á hjá Einari er ekki tengd ferðaþjónustu eða bústörfum – það er annars konar ræktun sem vekur forvitni að þessu sinni. Nefnilega vísnaræktin sem Einar stundar annað veifið og þar hefur sprettan verið með skásta móti nú í apríl.

Einar þykir afar snjall hagyrðingur og ýmsir sem vit hafa á málum gefa honum hin vænstu meðmæli. Feykir sendi nokkrar spurningar yfir Vatnsskarðið og langaði að forvitnast aðeins um eitt og annað vísnatengt.

Er þetta meðfæddur hæfileiki að setja saman góða vísu, er þetta í ættinni eða er það bara æfingin sem skapar meistarann. „Þetta veltur allt á ástríðu og æfingu ásamt máltilfinningu og orðaforða. Sjálfsagt hafa erfðir eitthvað með þessa grunnþætti að gera en ég held að „skáldagenið“ sé ekki til. Afi minn í móðurætt, Friðrik Ingólfsson í Laugarhvammi, var hagmæltur og gerði töluvert af vísum.“ 

Verða til vísur hjá þér á hverjum degi? „Á alllöngu tímabili á þroskabrautinni einsetti ég mér að gera vísu á hverjum einasta degi til æfingar. Ég er löngu hættur því og núna skiptast á tímabil þar sem allt og ekkert verður að vísu og svo hin þar sem þetta liggur að mestu niðri.“

Manstu hvenær þú settir saman vísu í fyrsta skipti og manstu hana? „Þetta man ég hvorki né kann og líklega lánlegt að svo skuli vera. Ég var eitthvað að rembast við þetta á unglingsárum með afar takmörkuðum árangri en var kominn vel á þrítugsaldur þegar þetta fór að ganga eitthvað.“

Er eitthvað frí frá ferskeytlunni – er hugurinn alltaf í þessum gír? „Núorðið koma tímabil þar sem hugsunin fellur ekkert endilega í hendingar. Ég er steinhættur að rembast við að gera vísu, þær bara koma eða koma ekki.“

Er einhver vísa sem þú ert verulega montinn með eða í sérstöku uppáhaldi? „Framan af lá metnaðurinn í því að yrkja dýrt og sigra alla mögulega bragarhætti, hversu snúnir sem þeir kunnu að vera. Þegar því var lokið vék þessi hugsun fyrir lipurðinni og nú er ég þar kominn að mér finnst hún dýrmætust. Af því leiðir að mér finnst þær vísur bestar sem koma án fyrirhafnar og orðaleitar í skúmaskotum hugans. Ég man í svipinn t.d. eina gamla og í sjálfu sér nauðaómerkilega, sem varð til þegar ég heyrði frétt í útvarpi um mannfjölda og fæðingar- og dánartíðni á Íslandi. 

Tölfræðingar telja þá,
sem tölta lífsins vegi,
og Íslendingar falla frá
fimm á hverjum degi.“

Hvenær er vísa góð og er einhver vísnagerðarmaður í sérstöku uppáhaldi hjá þér? „Fyrst og fremst þarf hún að vera rétt kveðin og bragfræðilega lýtalaus. Afsláttur frá því er viðlíka og leggja kapal og svindla til að hann gangi upp. Hún þarf að renna létt og ganga upp efnislega þannig að öll vísuorðin hafi þýðingu fyrir umfjöllunarefnið og samhengið. Oft vill fyrri parturinn, einkum önnur línan, verða eins og uppfyllingarefni til að klára vísuna og koma seinni partinum að en hefur sáralítið eða ekkert með efni hennar eða boðskap að gera. Skreyting með einhverri orðsnilld og undirliggjandi boðskap milli línanna er svo rúsínan í pylsuendanum. Ég vil ekki gera upp á milli núlifandi félaga minna opinberlega (enda fengi ég það stuðlað og rímað beint í andlitið) en held alltaf mikið upp á gömlu snillingana af Laxárdalnum, Rósberg G. Snædal og Svein Hannesson.“

Hefurðu eitthvað fengist við annars konar ljóðagerð - blundar í þér að gefa út ljóðabók? „Ég hef gert töluvert af háttbundnum ljóðum, orti t.d. sonnettusveig sem reyndist mér mesta áskorunin sem ég hef tekist á við í kveðskap. Í seinni tíð hef ég svo leyft mér að raða stundum saman orðum án ríms og reglna mér til gamans. Ætli ég verði ekki að vera ærlegur og játa að hafa velt útgáfu fyrir mér einhvern tímann. Hins vegar er það svo að mér finnst vísnabækur yfirleitt leiðinlegar aflestrar, hver vísa á sinn stað, sína stund og stemmingu, sem einhvern veginn fylgir sjaldnast á bókarsíðu. Ég er því afhuga hugmyndinni sem stendur hvað sem síðar kann að verða,“ segir Einar að lokum.

Eins og sagði í inngangi þá hefur Einar verið iðinn við kolann nú í apríl. Enda biðin eftir vorinu erfið þegar veturinn hefur verið harður í horn að taka, vopnaður vindum, óveðrum og vírusum. Hér eru vísurnar sem EInar hefur deilt með okkur á samfélagsmiðlinum Facebook:

2. apríl

Illa á kjaftinn andinn fær,
óðum dvínar kraftur,
vorið hætti við í gær
og veturinn kom aftur.

3. apríl

Vöflulaust hér veiran drap,
-verðum því að una-
fjölbreytni í félagsskap
og ferðaþjónustuna.

6. apríl

Bíður dagsins basl og önn,
en bráðum léttist sporið,
ég dunda við að draga úr fönn 
draumana um vorið.

15. apríl

Æ, mér fannst það ósköp næs,
– já alveg konungborið –
þegar ég heyrði gamla gæs
garga til mín vorið!

16. apríl

Fæ til gullnar sólar séð,
sendi bull úr hlaði,
þegar fullur vona veð
í vorsins drullusvaði.

21. apríl

Vonargleði í sinni og sál,
syngur forug áin,
og glittir loks í græna nál
gegnum fölu stráin.

22. apríl

Drjúg mun verða dagsins önn,
drengjum hroll að setur,
enda að koma undan fönn
allt sem fauk í vetur.

23. apríl

Til að kaupa mat til munns,
minnkar allra skerfur,
og framtíðinni er frestað uns
fjandans veiran hverfur.

26. apríl

Hann að mæla hefur lög,
hafnar öllu flani,
trúr í verki og traustur mjög,
Tóti veirubani.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir