Engar takmarkanir á skólahaldi með nýjum Covid reglum

Einhver bið verður enn um sinn að fólk komist í sund.
Einhver bið verður enn um sinn að fólk komist í sund.

 ‍Á miðnætti tóku gildi nýjar reglur um takmörkun á samkomum til 1. júní nk. og nær til skipulagðra viðburða þar sem fleiri en 50 manns koma saman og tekur til landsins alls. Við öll minni mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli fólks sé yfir tveir metrar. Takmörkun á samkomum. Smit á Íslandi hefur nú þegar haft nokkur áhrif á getu Landspítala til að veita heilbrigðisþjónustu og kallar það á frekari viðbrögð til að varna því að veiran breiðist hratt út.

Nauðsynlegt er að hægja á faraldrinum enn frekar til að auka líkur á því að heilbrigðiskerfið geti sinnt þeim sem veikjast af COVID-19 ásamt því að sinna annarri bráðaþjónustu. Í þessu skyni telur sóttvarnalæknir nauðsynlegt að herða á aðgerðum í samkomubanni og takmarka enn frekar en áður samgang fólks á milli.

Á covid.is segir að óvíst sé hvenær samkomubanninu lýkur en takmarkanir eru í stöðugu endurmati þannig að hægt sé að draga úr þeim eða þá lengja tímabilið sem þær gilda ef þörf þykir.

Skipulagðir viðburðir sem bannið nær til eru til dæmis:
Ráðstefnur, málþing, fundir, útifundir og hliðstæðir viðburðir.
Skemmtanir, s.s. tónleikar, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburðir og einkasamkvæmi.
Trúarathafnir hvers konar, s.s. vegna útfara, giftinga, ferminga og annarra trúarsamkoma.
Aðrir sambærilegir viðburðir með 50 einstaklingum eða fleiri. 

Eftirfarandi starfsemi er enn óheimil og er lokuð frá og með 4. maí og til og með 1. júní:
Skemmtistaðir, krár og spilasalir. Spilakassa má nota ef sótthreinsað er milli notenda og reglum um 50 einstaklinga í hópi ásamt tveggja metra reglu milli einstaklinga er fylgt.
Sundlaugar eru áfram lokaðar.
Húsnæði líkamsræktarstöðva er lokað en starfsemi utandyra er leyfð. Mest mega sjö einstaklingar æfa í hópum utandyra. Notkun búningsaðstöðu innanhúss er bönnuð.

Eftirfarandi starfsemi er heimil:
Heilbrigðisþjónusta, svo sem læknisskoðun, tannlæknaþjónusta og sjúkraþjálfun. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar fyrir sjúkraþjálfun og sambærilega starfsemi.
Hársnyrtistofur, snyrtistofur, nuddstofur, söfn og önnur sambærileg starfsemi. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar fyrir Hársnyrtistofur, nuddstofur, augnmælingar og sambærilega starfsemi sem krefst nálægðar viðviðskiptavini. 

Skipulagt íþróttastarf
Æfingar skipulags íþróttastarfs fyrir börn í leik- og grunnskóla eru án takmarkana. Keppnir eru hins vegar aðeins leyfðar án áhorfenda. Áfram er hvatt til sérstaks hreinlætis og handþvottar og að 2ja metra nándarreglan verði virt eins og hægt er.
Æfingar og keppnir skipulags íþróttastarfs fyrir fullorðna (þ.m.t. íþróttir í framhalds- og háskólum) eru heimilar með eftirfarandi takmörkunum:
Mest sjö einstaklingar með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll (2.000m2).

Mest fjórir einstaklingar með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll (800 m2).
Notkun búningsaðstöðu innanhúss er óheimil.
Hvatt er til að virða tveggja metra nándarregluna.
Keppni í íþróttum fullorðinna er óheimil nema ef hægt sé að uppfylla skilyrði um 2ja metra nándarreglu og að keppni sé án áhorfenda. 

Sundæfingar fyrir fullorðna eru að hámarki fyrir sjö einstaklinga. Notkun búnings- og sturtuaðstöðu er leyfð.
Áfram er hvatt til sérstaks hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts. 

Allar undanþágur sem veittar hafa verið vegna takmarkana á samkomum og sóttkví halda  gildi sínu. Eingöngu verða veittar undanþágur vegna innviða sem eru ómissandi þegar kemur að því að bjarga mannslífum og mega því ekki stöðvast. Þetta á m.a.  við um heilbrigðisstarfsemi, sjúkraflutninga, löggæslu, slökkvilið, samgöngur, raforku og fjarskipti.

‍Matvöruverslanir og lyfjabúðir
Matvöruverslanir og lyfjabúðir mega engu að síður hafa allt að 100 manns inni í einu að því gefnu að gætt sé að því að hafa 2 metra á milli manna. Þá er matvöruverslunum sem eru yfir 1.000 fermetrar að stærð heimilt að hleypa til viðbótar einum viðskiptavini inn fyrir hverja 10 fermetra umfram 1.000 fermetra, þó að hámarki 200 viðskiptavinum í allt.

Hvernig verður skólahaldi háttað?
Engar takmarkanir eru á skólahaldi í leik- og grunnskólum frá og með 4. maí. Allir nemendur geta mætt samtímis í skólann, farið í útiveru og verið í mötuneyti. Félagsmiðstöðvar og frístundaheimili geta verið opin.
Kennarar og annað starfsfólk mega þó ekki vera fleiri en 50 manns á sama stað. Skemmtanir t.d. vorhátíðir, vorferðir og útskriftir geta farið fram en án fullorðinna gesta utan skóla s.s. foreldra.

Áfram er hvatt til sérstaks hreinlætis og handþvottar. 
Í framhalds- og háskólum miðast fjöldatakmarkanir nemenda við 50 einstaklinga að hámarki og að 2ja metra nándarreglan verði virt. Íþróttir miðast við takmarkanir fyrir íþróttastarf fullorðinna og áfram er hvatt til hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts.
Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að kynna sér leiðbeiningar um samneyti barna og ungmenna utan skóla. 

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir