Fæðubótarefni fyrirbyggja ekki sýkingar

Matvælastofnun vekur athygli á því að þessa dagana sé mikið um auglýsingar á vörum sem eigi að styrkja ónæmiskerfið og koma í veg fyrir sýkingar, m.a. af völdum kórónuveirunnar. Vill Matvælastofnun vara fólk við slíkum upplýsingum og bendir á að slíkar staðhæfingar séu rangar og villandi fyrir neytendur, fæðubótarefni séu matvæli og ekki megi eigna þeim þá eiginleika að fyrirbyggja sýkingar eða lækna sjúkdóma. Þetta gildi einnig um matvæli almennt.

„Það er vissulega rétt að virkt ónæmiskerfi skiptir höfuðmáli til að verjast sýkingum en það er engin ofurfæða eða fæðubótarefni sem geta komið í veg fyrir sýkingu af völdum kórónaveira.  Góð næring skiptir miklu máli fyrir eðlilega starfsemi ónæmiskerfisins en langflestir hérlendis uppfylla næringarþarfir sínar með góðu og fjölbreyttu fæði,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar. Þar er einnig bent á vef landlæknis en þar má finna upplýsingar um mikilvægi góðrar næringar fyrir heilsu.

Þá hvetur Matvælastofnun til að tilmælum landlæknis varðandi handþvott, hósta eða hnerra í olnbogabótina og takmarka náin samskipti s.s. handabönd og faðmlög sé fylgt.

„Einnig er nú sem endranær rétt að benda á leiðbeiningar Matvælastofnunar um meðhöndlun matvæla við matargerð og spurt og svarað um COVID-19 og matvæli,“ segir í tilkynningunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir