Fjöldi manns gæddu sér á rammíslenskum hátíðamat

Sumarhátíðin Bjartar nætur fór fram í Hamarsbúð á Vatnsnesi 20. júní s.l. í fimmtánda sinn, en það eru Húsfreyjurnar á Vatnsnesi sem standa fyrir henni. 

 

Um það bil 390 manns nutu hins margrómaða fjöruhlaðborðs, sem svignaði undan sjaldséðum kræsingum á borð við selkjöt, signa grásleppu, súrsaða selshreifa, kviðsvið, rúsínublóðmör, grafna grálúðu, snittum með kæfu og reyktum silungi, heimagerðu skyri og fjallagrasamjólk svo fátt eitt sé nefnt.

 

Gestir fjöruhlaðborðsins komu ríðandi, gangandi og akandi, og þeir síðastnefndu komu frá öllum landshlutum. Um tónlistina og stemminguna sá Tríó Ragnars Levi.

Bögglauppboð var haldið að vanda í stórtjaldinu, en tekið skal fram að allur ágóði uppboðsins rennur óskertur til Náttúrugripasafns Grunnskóla Húnaþings vestra.

Veðrið var milt og rólegt, en rigningarskúrir voru um tíma en það er í fyrsta skipti á þessum fimmtán árum sem það gerist í þessari veislu.  Þrátt fyrir vætuna skemmtu gestir hátíðarinnar sér vel, og er hún rós í hnappagati sýslunnar.

Fleiri fréttir