Gleðilegt sumar!

Í dag er sumardagurinn fyrsti, yngismeyjadagurinn, og óskar Feykir öllum gleðilegs sumars og þakkar fyrir sögulegan vetur. Dagurinnn er einnig sá fyrsti í Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu frá 19.-25. apríl (það er fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl). Sumar og vetur frusu ekki saman að þessu sinni á Norðurlandi vestra.

Samkvæmt íslenskri þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Svo gott var það ekki á Norðurlandi vestra þar sem hitinn var alls staðar fyrir ofan núllið á þeim stöðvum Veðurstofunnar sem Feykir athugaði. Lægsta talan var á sjálvirkri stöð á Holtavörðuheiði um miðnættið 0,8 °C.

Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur segir um sumardaginn fyrsta í bók sinni Saga daganna - hátíðir og merkisdagar að hvarvetna hafi verið fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. „Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Hvað átt er við með góðu sumri í þjóðtrúnni er nokkuð á reiki, en hugsanlega er einkum átt við að nyt búpenings verði góð, sem verður þegar taðan er kjarnmikil. Ef engjar og tún eru seinsprottin verða hey oft kjarngóð og því ætti nytin einnig að verða góð. Slíkt gerist þegar svalt er og vott framan af sumri, en síðan hlýrra og þurrt og kann þjóðtrúin að vísa til þess að þegar vorið er kalt þá er oftast frost á sumardaginn fyrsta sem leiðir líkum að því að sumarið verði seinna á ferðinni. Þá er allur gróður einnig seinni að taka við sér, en það gerir grösin kjarnbetri og bætir nyt búpenings.“

Af hverju er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur?

Þeirri spurningu er svarað á Vísindavefnum:
„Áður en rómverska tímatalið barst hingað með kirkjunni höfðu Íslendingar komið sér upp eigin tímatali sem ekki virðist hafa verið til annars staðar. Sennilega hefur Íslendingum þótt nauðsynlegt að hafa eitthvert sameiginlegt tímaviðmið eftir að þeir settu sér eigin samfélagsreglur með stofnun Alþingis snemma á 10. öld.

Rómverska tímatalið varð virkt eftir að föst skipan komst á kirkjuna með stofnun biskupsstóls eftir miðja 11. öld. Íslendingar köstuðu samt gamla tímatalinu ekki fyrir róða heldur löguðu það til svo að það lifði góðu lífi við hlið hins kirkjulega tímatals og gerir enn í vönduðum almanökum.

Í stærstu dráttum var árinu skipt í tvö nær jafnlöng misseri: Vetur og sumar. Vetrarmisserið byrjaði alltaf á laugardegi og sumarmisserið á fimmtudegi. Fram til ársins 1700 var það fimmtudagurinn á bilinu 9.-15. apríl en eftir 1700 á bilinu 19.- 25. apríl. 

Það er hvergi sagt berum orðum í lögum, en menn virðast hafa litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum, og enn er svo um aldur húsdýra. Því var dagurinn haldinn hátíðlegur. Meðal annars er vitað um sumargjafir að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir fóru að tíðkast. Þá var haldin matarveisla sem þótti ganga næst jólunum.

Fyrsti dagur sumars var líka frídagur frá vinnu og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við nágranna. Þá var hann einnig helgaður ungum stúlkum og nefndur yngismeyjadagur. Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á. Þetta var sambærilegt við bóndadaginn og konudaginn á fyrsta degi þorra og góu.

Lengi var messað og lesinn húslestur á sumardaginn fyrsta. Það þekktist hvergi annars staðar og þegar eftirlitsmenn danskra kirkjuyfirvalda uppgötvuðu þessa sérstöðu um miðja 18. öld létu þeir banna messur á þessum degi.

Eftir aldamótin 1900 gerðu ungmennafélögin sumardaginn fyrsta að helsta hátíðisdegi sínum og árið 1921 var hann gerður að stuðningsdegi fyrir börn í Reykjavík og eftir það oft nefndur barnadagurinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir