Heldur útgáfutónleika með eigin tónlist

MYND. ÍRIS HÓLM
MYND. ÍRIS HÓLM

Hrafnhildur Ýr er sveitastelpa úr Víðidal í Vestur-Húnavatns- sýslu, en hún ólst upp í Dæli frá fimm ára aldri. Vorið sem Hrafnhildur varð fimm ára skrapp hún með mömmu sinni í sauðburð í sex vikur en svo vildi til að þær fóru ekki aftur til baka því mamma hennar varð ástfangin af bóndasyninum. ,,Hann ættleiddi mig svo þegar ég var sex ára og það sama ár eignaðist ég bróður og svo fæddist sá yngsti fjórum árum eftir það. Þeir heita Vilmar Þór og Kristinn Rúnar og lærðu báðir á Króknum á sínum tíma, Vilmar húsasmíði og Kiddi bifvélavirkjun."

Hrafnhildur býr núna í Reykjavík með manninum sínum honum Davíð og eiga þau samtals sex börn og fimm barnabörn, svo það er oft fjör á heimilinu. Börnin eru öll uppkomin nema sú yngsta sem er í framhaldsskóla og býr ennþá heima. Svo má ekki gleyma hundinum Blika sem er yfirleitt kallaður loðfíllinn á heimilinu. Hrafnhildur hefur unnið við ýmislegt um ævina, er útskrifaður kennari og ferðamálafræðingur og gengdi í gamla lífinu sínu ýmsum störfum því tengdu. „Ég er svo heppin að fá að starfa við það sem ég elska að gera. Ég er annars vegar tónlistarkona og hins vegar rek ég lítinn skóla með vinkonu minni. Skólinn heitir Starcodes Academy og er tileinkaður mannrækt og sjálfsrækt. Námsefni skólans byggjum við á eigin reynslu á alvarlegri lífskulnun sem við lentum báðar í fyrir nokkrum árum síðan,“ segir Hrafnhildur.

Hefur tónlistin alltaf verið partur af þínu lífi? „Ég hef alltaf elskað tónlist og var ótrúlega fljót að læra bæði texta og laglínur sem krakki. Ég elskaði m.a. Eurovision og man eftir mér 4-5 ára að horfa á keppnina á VHS í stofunni hjá afa og ömmu og semja dansa við hvert og eitt lag,“ segir Hrafnhildur. Síðan rifjar hún upp þegar hún flutti í sveitina að þá man hún eftir sér með Söngbók UMFÍ í höndunum, sitjandi við hliðina á mömmu sinni þar sem hún var að elda. Hún kenndi henni svo lögin, hvert fyrir sig og söng þau með henni. „Mamma elskaði tónlist spilaði á gítar, söng raddað með lögunum í útvarpinu og var yfirleitt aðaltrúbbinn í öllum partýum,“ segir Hrafnhildur.

Hefur þú alltaf verið að semja tónlist? „Ég hef samið tónlist frá því að ég var krakki, en þar sem ég spila ekki á nein hljóðfæri að ráði urðu laglínurnar oftast til í höfðinu á mér og gleymdust svo þar. Það hefði kannski verið öðruvísi ef ég hefði haft síma með raddupptöku við höndina eins og núna, svo mikið af þessu er gleymt.“ Hrafnhildur orti hins vegar heilmikið og ólst upp í kringum mikið ljóðafólk. Afar hennar ortu t.d. mikið og kváðust á í sendibréfum til hvors annars. Mamma hennar var líka dugleg að yrkja, sérstaklega um sveitungana ef eitthvað skemmtilegt var um að vera. „Þar sem ég spila ekki á hljóðfæri taldi ég mér trú um að ég gæti ekki samið tónlist, allt þar til ég fór í tónlistarnám þar sem við fengum að kynnast því á hversu ólíkan hátt tónlistarfólk semur. Þá var eins og einhverjar flóðgáttir opnuðust og ég leyfði mér að fara inn í þetta geggjaða sköpunarferli,“ segir Hrafnhildur.

Nú ert þú að gefa út og halda útgáfutónleika, getur þú sagt okkur frá því? „Í lok síðasta árs gaf ég út fyrstu sólóplötuna mína ÉG sem inniheldur sjö glæný íslensk lög. Lögin eru samin ýmist á íslensku eða ensku, allt eftir því hvernig þau komu til mín. Það er engin ákveðin tónlistarstefna á plötunni þannig, heldur tók ég þá ákvörðun að leyfa henni að endurspegla mig og hversu margar hliðar ég hef. Ég byrjaði að vinna plötuna síðasta vor og er mjög ánægð með útkomuna.“ Útgáfutónleikarnir verða haldnir í Hafnarfirði 21. mars og á Hvammstanga 23. mars. Með henni er frábært tónlistarfólk, hljómsveit, raddsveit, hljóð- og ljósamenn. Á Hvammstanga slæst Rokkkór Húnaþings vestra svo í hópinn, sér um upphitunaratriðið og syngur svo með Hrafnhildi nokkur lög. Aldís Fjóla tónlistarkona sér um að hita upp á tónleikunum í Hafnarfirði. Á tónleikunum flytur Hrafnhildur einnig önnur lög sem hún hefur gefið út undanfarin ár, ein eða með öðru listafólki. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég flyt þessa tónlist á sviði fyrir áhorfendur og ég get ekki beðið eftir því að stundin renni upp. Lögin eru afar persónuleg og hvert hefur sína sögu. Það verður því mögnuð stund og eftirminnileg að fá að flytja þau svona í fyrsta skipti.“

Hefur þú lært mikið í tónlist eða eru þetta allt saman meðfæddir hæfileikar? „Ég hugsa að sönghæfileikarnir séu meðfæddir en ég hef samt farið í alls konar nám til að beisla hæfileikana og læra að nota hljóðfærið mitt sem best.“ Hrafnhildur fór einn vetur í djass- og blúsnám í tónlistarskóla FÍH og fór svo í grunnnám í CVT (Complete Vocal Technique) hjá Heru Björk. Hún heillaðist mjög að þeirri tækni svo hún ákvað í kjölfarið að skella sér út til Kaupmannahafnar í frekara CVT nám sem tók einn vetur. Þegar hún kom heim fór hún svo í nám sem kallaðist Samsteypan, en það snéri meðal annars um þróun listamannsins og lagasmíðum.

Hvernig tónlist ertu að semja? „Ég sem alls konar tónlist, en eins og heyra má á plötunni má oft finna einhvers konar blús og gospelfíling inn á milli. Það koma til mín alls konar lög í alls konar stíl og ég reyni að takmarka mig ekki við eitthvað eitt. Það er mun árangursríkara að leyfa þessu bara að flæða.“ Hrafnhildi finnst alltof mikil áhersla á að tónlistarfólk skapi sér ákveðinn ramma að vinna innan, töfrarnir gerast þegar stígið er út fyrir rammann.

Textar er það eitthvað sem þú gerir líka? „Ég sem texta við mín eigin lög og hef einnig gert texta við lög annarra í gegnum árin.“ Tvo texta á plötunni vinnur hún með öðrum, en þau lög eru samin af öðru tónlistarfólki. Textar og ljóð hafa alltaf verið partur af Hrafnhildi og sem krakki skrifaði hún líka mikið af hugleiðingum og sögum.

Hvað er þín tónlist? Hvernig tónlist hlustar þú á? „Ég elska tónlist en verð að viðurkenna að á tímabili hlustaði ég ekki mjög mikið. Þegar ég hlusta elska ég soul, jazz og blues tónlist og hlusta mikið á hana.“

Þarf alltaf að vera tónlist? „Tónlist hefur þann eiginleika að geta vakið upp alls konar tilfinningar hjá okkur. Við eigum öll lög sem hafa hjálpað okkur í gegnum erfiða tíma og svo önnur sem við tengjum við gleði og hamingju. Þau eru einhvern veginn órjúfanlegur hluti af tilverunni og sem tónlistarkona er mikill heiður að fá að taka þátt í slíkum augnablikum með fólki, hvort sem ég er að flytja mína eigin tónlist eða annarra. Tónlist á þó alltaf stund og stað, stundum finnst mér ofboðslega gott að vera í þögninni líka,“ segir Hrafnhildur. Undirbúningur útgáfutónleikanna er núna í fullum gangi og tíminn flýgur áfram. Að baki svona verkefni liggur mikil vinna og það kostar sitt að koma svona tónleikum á koppinn. Hrafnhildur ákvað því að hrinda af stað hópfjármögnum á Karolina Fund þar sem fólk getur stutt verkefnið. Þeirri söfnun líkur núna 18.mars, svo hægt er að skella sér þangað inn og styrkja útgáfutónleikana. Hrafnhildur segist afar þakklát þeim sem hafa styrkt nú þegar. Inni á síðunni er hægt að lesa setningu sem Hrafnhildur hefur skrifað. „Lengi framan af hafði ég ekki næga trú á sjálfri mér til að láta þetta verða að veruleika. En nú trúi ég af öllu hjarta að ég geti og megi láta draumana mína rætast.“

Hvað breyttist? „Þetta breyttist í raun ekki fyrr en ég var búin að lifa alvarlega lífskulnun og þurfti að endurskoða lífið og hvernig ég vildi lifa því frá A-Ö. Það var ekki lengur í boði að vera áhorfandi í eigin lífi og setja allt annað í forgang en sjálfa mig, ekki ef ég vildi fá heilsuna mína aftur,“ segir Hrafnhildur. Í kjölfarið fór hún í mikla sjálfsvinnu til að vinna í gegnum áföll og læra hver hún er í raun og veru. „Hvernig manneskja ég vil vera, fyrir hvað ég vil standa og hverjir draumar mínir raunverulega eru. Þar komst ég að því að tónlistin er órjúfanlegur hluti af mér og á sér samastað djúpt í hjartanu mínu. Ég elska að skapa og því meiri tíma sem ég set í það sem ég elska að gera, því hamingjusamari er ég. Það sama á við um litla skólann minn, hann veitir mér mikla gleði. Eftir að hafa fylgt mömmu í gegnum erfið veikindi og misst hana úr þeim lofaði ég sjálfri mér að ég ætlaði að fylgja draumunum mínum og lifa lífinu núna. Ég ber ábyrgð á að skapa mína eigin hamingju, “ þetta eru frábær lokaorð hjá Hrafnhildi og hægt að taka þessi orð hennar og gera að sínum.

Hægt er að fylgjast með Hrafnhildi og styrkja á karolinafund á eftirfarandi síðum:

www.facebook.com/hrabbymusic

www.instagram.com/hrabbymusic

www.karolinafund.com/project/view/6097

Viðtalið við Hrafnhildi var birt í 7.tölublaði Feykis 2024.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir