Landbúnaðarstefna verður mótuð fyrir Ísland

Mótuð verður Landbúnaðarstefna fyrir Ísland um sameiginlega sýn og skýrar áherslur til framtíðar. Verkefnið verður í forgangi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og mun fyrsti þáttur verkefnisins hefjast á næstu vikum, meðal annars með opnum fundum um allt land. Þetta kom fram í ávarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við setningu Búnaðarþings í dag.

Á heimasíðu landbúnaðarráðuneytisins kemur fram að tillaga um mótun stefnunnar sé að finna í lokaskýrslu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga og hefur undirbúningsvinna við mótun hennar staðið yfir síðustu mánuði.

„Við þurfum ekki að óttast endurskoðun. Hún er löngu tímabær og ég er sannfærður um að hún er forsenda frekari framþróunar greinarinnar. Mótun landbúnaðarstefnu er samvinnuverkefni bænda, neytenda og atvinnulífs, og stuðlar að frekari sátt um framtíð íslensks landbúnaðar.

Eftirspurn eftir hollum, hreinum og upprunavottuðum matvælum mun einungis aukast á komandi árum. Þar munu verða ráðandi verðmæti sem við Íslendingar búum svo vel að eiga, nægt hreint vant, endurnýjanleg orka, lítil mengun, heilbrigðir búfjárstofnar og lítil notkun aðskotaefna við framleiðslu matvæla. Þessi gæði eru grunnur þess að Ísland geti verið leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum,“ sagði Kristján Þór m.a. í ávarpi sínu en hægt er að nálgast það í heild sinni HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir