Leikskólinn Ásgarður 20 ára

Leikskólinn Ásgarður fagnar 20 ára afmæli sínu um þessar mundir. Starfsemi Leikskóla á Hvammstanga á sér reyndar lengri sögu því leikskóli var fyrst rekinn á Hvammstanga yfir sumarmánuðina í húsnæði Grunnskóla Hvammstanga og hófst sú starfsemi 1976.

Árið 1979 var opnaður leikskóli að Höfðabraut 25 og tók hann til starfa 15. október sama ár. Fyrsta skóflustunga að núverandi leikskólahúsnæði að Garðavegi 7 var tekin árið 1987. Leikskólabyggingin var vígð 13. ágúst 1994 og hlaut skólinn nafnið Ásgarður.

„Við byrjuðum á því að setja upp fána leikskólans um morguninn. Það er venja í okkar leikskóla að nemendur fá að búa til sína kórónu eigi þeir afmæli, nemendur veltu því mikið fyrir sér hvernig setja mætti kórónu á leikskólann,“ sagði Guðrún Lára Magnúsdóttir leikskólastjóri í samtali við Feyki.

„Dagurinn var í alla staði hátíðlegur. Við buðum gestum og gangandi í heimsókn eftir hádegi og vorum við með veitingar, bollakökur og halastjörnudrykk í sal skólans. Kveikt var á afmæliskertum og sungin afmælissöngur, dagurinn heppnaðist vel og fengum við marga gesti.Nemendur voru glaðir og kátir með uppákomuna,“ sagði Guðrún Lára.

Fleiri fréttir